Grillbrauð með grískri ídýfu

Það getur stundum verið gott að hafa eitthvað til að narta í á meðan verið er að bíða eftir grillmatnum. Hér er  hugmynd að skemmtilegu pallasnakki yfir fordrykknum þar sem við notum austurríska grilldeigið  (Grill Dej) frá Wewalka sem fæst í flestum verslunum.

Fyrst þarf að útbúa grísku ídýfuna en það sem þarf er:

  • Grísk jógurt, 250 grömm
  • Fetaostur, 250 grömm
  • Ferska myntu, eina lúku af blöðum
  • Sítrónu, hálfa
  • Hvítlauk, tvö rif

Byrjið á því að sía fetaostinn frá vökanum, í þessa uppskrift notum við hreina fetaostinn, engan kryddlög. Setjið ostinn í skál og myljið með gaffli. Bætið jógurtinu saman við og hrærið vel saman með gaffli.

Eini vandinn í þessari uppskrift er að fetaostur og grísk jógúrt eru seld í mjög mismunandi stærðarpakkningum. Við þurfum að blanda þeim nokkurn veginn saman til helminga en það er smekksatriði ef menn vilja örlítið meira jógúrt  en ost.

Pressið safann úr hálfri sítrónu og hrærið saman við osta-jógúrtblönduna. Saxið myntublöðin fínt og rífið hvítlaukin og bætið saman við. Kælið.

Þá er að grilla brauðið. Byrjið á því að rífa niður 2-3 hvítlauksrif og blandið saman við góða ólífuolíu. Best er ef hvítlaukurinn og olían fær að blandast saman í nokkra klukkutíma.

Penslið aðra hliðina á brauðinu með hvítlauksolíunni og leggið síðan brauðið á sjóðandi heitt grillið með pensluðu hliðina niður. Á meðan sú hlið er að grillast þá penslið þið efri hliðina. Fylgist vel með og verið tilbúin með spaðann að snúa brauðinu við. Það er mjög fljót að grillast. Snúið við og grillið hina hliðina á brauðinu.

Berið fram með ídýfunni og köldu og góðu hvítvíni.

Deila.