Besti vanilluísinn

Það eru til óteljandi uppskriftir að ís og við erum búin að reyna þær margar. Þessi uppskrift að vanilluís stendur hins vegar algjörlega uppúr. Hann er þykkur og með mögnuðu vanillubragði en best er að gera hann með ísvél. Auðvitað er hægt að setja ísinn í form og frysta en langbestur verður hann með ísvél.

Í skammt sem dugar fyrir 4 (eða 6 ef ísinn er borinn fram með t.d. köku) þarf:

  • 8 eggjarauður
  • 120 g sykur
  • 5 dl mjólk
  • 4 tsk undanrennuduft
  • 1 vanillustöng

Þeytið eggjarauðurnar vel saman saman við sykurinn og undanrennuduftið þangað til þetta er orðið að ljósu kremi.

Hitið mjólkina í þykkri pönnu eða potti. Skerið vanillustöngina í tvennt og skrapið fræin innanúr og bætið út í mjólkina. Saxið síðan vanillustöngina í minni búta og bætið henni við. Þegar mjólkin kemur að suðu er hitinn lækkaður og mjólkurblandan látin malla í fimm mínútur.

Hitið þá aftur upp að suðupunkti og hellið síðan mjólkinni yfir eggjablönduna og hrærið vel saman. Þessu er síðan öllu bætt aftur út í pottinn. Hitið upp en passið að hafa hitann ekki of mikinn, þá breytist blandan í búðing. Hrærið í á meðan með sleif og þegar blandan fer að þykkna og loða við hana er slökkt á hitanum.

Hellið í skál í gegnum sigti og pressið vanillustangarbitana vel. Kælið skálina í vatnsbaði og setjið loks í ísvél.

Deila.