Klikkuð smálúða – að hætti Napólíbúa

Þessi uppskrift frá Napólí á Suður-Ítalíu er vissulega klikkað góð eins og sumir myndu segja en með þessari nafngift er hins vegar verið að vísa til ítalska nafnsins á réttinum, pesce all’acqua pazza eða fiskur í klikkuðu vatni. Ítalir eru alla jafna mjög jarðbundnir þegar kemur að því að nefna matarrétti og er hér líklega verið að vísa til þess hvernig vatnið bullsýður og verður að ljúffengri sósu.

Og ljúffeng er hún. Það er ótrúlegt hvernig þessi fáu og einföldu hráefni umbreytast í unaðslegan rétt, maður þarf bara að loka augunum á meðan sósan sýður til að ferðast til Miðjarðarhafsins. Ítalir nota vissulega ekki smálúðu mikið en mér finnst hún smella vel að þessari sósu.

  • 1 kíló smálúða
  • 1 stór „Ítalíu“-krukka af heilum tómötum eða tvær niðursuðudósir
  • 1 lítri vatn
  • 4 hvítlauksgeirar, niðursneiddir
  • 1 búnt steinselja, söxuð
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 dl ólífuolía, extra virgin
  • salt

Hellið vatni, tómötum, steinselju, hvítlauk, chili, ólífuolíu í stóra pönnu sem hægt er að loka með loki. Saltið. Hotið upp að suðu, lækkið hitann, setjið lokið á og látið málla í 45 mínútur. Takið þá lokið af, hækkið hitann og sjóðið niður þar til um helmingur af upphaflegu magni er eftir á pönnunni.

Bætið nú fiskinum út á pönnuna og látið roðið snúa upp. Sjóðið í tvær mínútur og snúið honum þá varlega við og eldið í um tíu mínútur til viðbótar. Saltið og piprið eftir smekk.

Berið strax fram. Það þarf í sjálfu sér ekkert meðlæti með þessum rétti. Tagliatelle eða hrísgrjón er hins vegar hægt að hafa til hliðar ef vill.

Deila.