Castello Banfi Cum Laude 2005

Þetta ofurvín frá Castello Banfi er sett saman úr blöndu af klassískum þrúgum Toskana og Frakklands: Sangiovese, Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah, ræktuðum á Brunello-svæðinu í grennd við Montalcino.

Vínið er fullvaxið og öflugt en jafnframt mjúkt og algjörlega tilbúið til neyslu, þótt vissulega mætti það bíða í kjallaranum í 5 ár. Í nefi leyna sér ekki fjórtán mánuðir í frönskum eikartunnum, dökkt súkkulaði er áberandi ásamt mokkakaffibaunakeim í blandi við þroskuð kirsuber, bláberjasultu og vanillu. Í munni umlykja silkimjúk tannín þungan bragðmassann sem hefur smá kryddað piparbit. Hrikalega flott vín og á afskaplega fínu verði miðað við hvað það gefur mikið, sem tryggir því fullt hús.

Þetta er vín fyrir villibráðina, ekki síst hreindýr, eða þá góða nautasteik.

3.436 krónur

 

Deila.