Beljan Rauðvín Toskana

Þá er komið að rauða Toskana-víninu frá Castello di Querceto sem sett hefur verið á þriggja lítra „belju“ fyrir íslenska markaðinn að frumkvæði Arnars og Rakelar í Vín og Mat.

Þetta er verulega frambærilegur Sangiovese, sem er jú meginþrúga klassískra Toskana-rauðvína á borð við Chianti. Ekki stórt vín en vel gert og snoturt, og svona svolítið „fágað“ af kassavíni að vera. Þurrt með krydduðum, jarðmiklum kirsuberjaávexti. Efst svífur reykur og örlítið spritt en í munni er vínið mjúkt, með mildri sýru og örlítið grænum tannínum.

5.890 krónur eða sem samsvarar 1.472 krónum á hverja 75 cl. flösku. Virkilega góð kaup.

 

Deila.