Argentína

Argentínsk vín eru skyndilega farin að sækja í sig veðrið á alþjóðlegum markaði. Þótt þau eigi langt í land með að ná sömu vinsældum og vín nágrannanna handan Andesfjalla í Chile, að ekki sé nú minnst á vínin frá Ástralíu, er greinilegt að argentínsk vínframleiðsla hefur vaknað úr dvala og er að hefja stórsókn.

Það hefur lengi legið ljóst fyrir að Argentína hefði alla burði til að verða stórveldi í vínheiminum. Argentína hefur verið fimmti mesti vínframleiðandi heims um langt skeið, vandinn hefur einungis verið sá að vínin hafa ekki ratað út fyrir landsteinana. Og þá sjaldan þau hafa gert það hafa viðtökurnar ekki verið neitt stórkostlegar (með einstaka undantekningum þó).

Vanda Argentínumanna má að mörgu leyti rekja til innlendra neysluvenja. Argentínumenn eru mjög margir af ítölskum uppruna og vínneysla á sér ríka hefð. Raunar hefur vínneysla þeirra verið áþekk og jafnvel meiri en Ítala. Framleiðendur hafa því látið sér nægja að búa til vín fyrir innanlandsmarkaðinn, sem yfirleitt gerði ekki alltof strangar kröfur (svona svipað og ástandið var í Evrópu fyrir tveimur áratugum eða svo).

Versnandi efnahagsástand og minni innanlandsneysla hefur hins vegar smám saman gert það að verkum að stöðugt fleiri framleiðendur horfa út fyrir landsteinana. Að sama skapi hafa vinsældir vína frá Chile opnað augu margra erlendra framleiðenda fyrir Suður-Ameríku og þá hafa menn ekki síst staldrað við „risann“ á svæðinu, Argentínu. Þótt Argentína eigi langt í land með að ná að vinna upp forskot Chile hefur útflutningur tvöfaldast á síðastliðnum hálfum áratug.

Kjöraðstæður til víngerðar eru í Argentínu. Helsta vínræktarrsvæðið er Mendoza (en það hérað er álíka stórt og Spánn) við rætur Andesfjalla. Sumur eru heit og þurr, áveituvatn má fá úr Andesfjöllum og ekki skortir land til ræktunar. Það er ekki síst sökum þess hversu hagstætt verð á ekrum er að mörg af þekktustu víngerðarfyrirtækjum heims hafa fjárfest í Argentínu á undanförnum árum. Þar má nú finna fyrirtæki frá Frakklandi, Bandaríkjunum og jafnvel Chile. Stærstu vínfyrirtæki Chile, s.s. Concha y Toro, Santa Rita og San Pedro, hafa á síðustu árum fjárfest fyrir marga milljarða í Argentínu og eru með hundruð hektara í ræktun.

Argentínsk vín hafa upp á ýmislegt að bjóða og ekki síst er það fagnaðarefni að meginþrúga Argentínu er ekki Cabernet Sauvignon (eins og alls staðar annars staðar) heldur önnur og mun óþekktari Bordeaux-þrúga: Malbec. Sú þrúga er að verða að flaggskipi argentínskrar vínframleiðslu. Rétt eins og Shiraz (Syrah) dafnar við ástralskar aðstæður nær Malbec einstökum gæðum í Argentínu ef hún er ræktuð og gerjuð af natni

Deila.