Kótilettur með ólívum

Þetta er svolítið öðruvísi aðferð við eldun á lambakótilettum en við erum vön enda kemur hún frá Suður-Ítalíu. Hvort sem er í Kalabríu, Kampaníu eða Púglíu er algengt að rekast á lambakótilettur eða bógsneiðar af lambi eldaðar með ólífum og sítrónu.

  • 1 kg. a af snyrtum lambakótilettum eða bógsneiðum
  • Safi úr einni sítrónu
  • 3 dl svartar ólívur, olíulegnar og steinlausar, grófsaxaðar
  • 1 tsk þurrkað óregano
  • 1/2 tsk þurrkaðar chili-piparflögur (hot pepper eða red pepper flakes)
  • ólífuolía

Hitið olíuna á pönnu saltið og brúnið kótiletturnar.  Það er líklegt að þið þurfið að steikja kótiletturnar í tveimur umgöngum. Hellið fitunni af pönnunni.

Setjið nú allar kótiletturnar á pönnuna, kryddið með óreganó og chili-flögunum, hellið sítrónusafanum yfir og bætið ólívunum saman við. Veltið þessu öllu vel saman með sleif, setjið lok á pönnuna og eldið á mjög vægum hita í um 20 mínútur.

Berið kótiletturnar fram sjóðandi heitar, beint af pönnunni ásamt ólífunum. Þetta er sósulaus réttur og fínt að bera fram með bökuðum kartöflubátum.

Kröftugt suður-ítalskt rauðvín á borð við Feudi San Marzano Negroamaro eða Biscecglia Terra di Vulcano Aglianico.

Deila.