Saltfiskur með tómötum og steinselju

Það er merkilegt við íslenska saltfiskinn að hann á alveg einstaklega vel við spænsk rauðvín. Sem er heppilegt því engir kunna að elda saltfisk betur en Spánverjar.  Þessi uppskrift að saltfiski er spænsk að upplagi og það sem þarf eru góðir útvatnaðir saltfisksbitar. Annað hráefni sem þarf:

  • 1 laukur, saxaður
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 1 flaska Tómatapassata eða tómatar úr dós
  • 1 steinseljubúnt, saxað
  • rauðvín (eða hvítvín)
  • long grain hrísgrjón
  • hveiti
  • ólífuolía

Byrjið á því að velta saltfisksbitunum upp úr hveiti. Hitið olíu á pönnu og steikið fiskinn þar til hann hefur tekið á sig falegan gylltan lit. Takið fiskinn af pönnunni og geymið. Bætið við olíu á pönnuna og steikið laukinn og hvítlaukinn á miðlungshita. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er skvettu af víni bætt á pönnunna og skófarnar losaðar upp. Setijð tómatana næst út á pönnuna og leyfið  að malla á miðlungshita í 3-5 mínútur. Bætið þá saltfiskbitunum út á aftur og látið malla áfram þar til þeir hafa hitnað í gegn.

Setjið söxuðu steinseljuna út á í lokin og berið fram.

Með þessu er gott að hafa long-grain hrísgrjón og rauðvín frá Rioja, t.d. Cune Reserva.

Deila.