Sikileyskt ragú með baunum

Ragú er það orð sem Ítalir nota yfir kjötsósu með pasta og sú þekktasta þeirra er sú sem við köllum bolognese. Þetta afbrigði af ragú kemur frá Sikiley og gefa grænar baunir henni aukið bragð. Á Sikiley er þessi kjötsósa oft blönduð saman við annelli-pasta (lítur út eins og Cherrios) og bökuð ásamt osti.

  • 500 g spaghetti eða tagliatelle
  • 500 g nautahakk
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 1 sellerístöng, söxuð í fína teninga
  • 2 gulrætur, saxaðar í fína teninga
  • 1 dl rauðvín
  • 1 stór dós tómatapúrra
  • 3-4 dl frosnar baunir

Hitið olíu á þykkri pönnu og steikið lauk, gulrætur og sellerí á miðlungshita í rúmar tíu mínútur eða þar til það byrjar að taka á sig brúnan lit. Veltið reglulega um á pönnunni.

Bætið við kjötinu, saltið og piprið. Þegar kjötið hefur tekið á sig lit er víninu bætt út á og látið sjóða niður í um fimm mínútur.

Bætið nú tómatapúrruni út á pönnuna. Skotið dósina með vatni til að ná öllu og bætið út á. Látið malla á vægum hita í um korter. Setjið þá frosnu baunirnar út á pönnuna og eldið í um fimm mínútur til viðbótar.

Berið strax fram með spaghetti eða tagliatelle. Og að sjálfsögðu rifnum Parmesan.

Suður-ítalskt rauðvín með á borð við A Mano Primitivo.

Deila.