Paella

Paella er líklega þekktasti réttur Spánar en rétt eins og  ítalski ættinginn „risotto“ þá er Paella ekki eitthvað sem er greypt í stein. Það er hægt að útbúa paellu á margs konar hátt og nota jafnt kjöt sem fisk. Það er hægt að nota margvíslegar tegundir af kjöti og sjávarrétum og það er hægt að blanda kjöti og sjávarréttum saman.

Ef paellan er gerð eingöngu með sjávarfangi er hún kölluð paella marisco og nota Spánverjar bæði fisk og margvíslegar tegundir af skelfiski. Af kjöti sem gjarnan er notað má nefna kjúkling, önd og kanínu.

Spánverjar nota yfirleitt spænsk grjón sem nefnast Calasparra en þau eru ekki fáanleg hér á landi. Risotto-grjónin Arborio gera hins vegar sama gagn.

Uppskrifftin hér er dæmigerð Paella Mixta, eða paella þar sem blandað er saman kjöti og fiski. Það má líka nota kjúklingalæri, skötusel, krækling, humar og margvíslegan skelfisk.

 • 500 g kjúklingabringur
 • 300 g svínakjöt, t.d. svínarif
 • 250 g grænar baunir (frosnar)
 • 150 g strengjabaunir
 • 150 g smokkfiskur, sneiddur í litla bita
 • 100 g rækjur
 • 2 tómatar, saxaðir fínt
 • 1 dl ólívuolía
 • 1 l kjúklingasoð
 • 1 tsk paprikuduft
 • 1,5 gr saffran
 • 400 g Arborio-hrísgrjón
 • salt og pipar

Aðferð:

Skerið kjötið í bita og sneiðið niður smokkfiskinn ef hann er heill.

Hitið upp olíuna á stórri pönnu og brúnið kjötið og síðar sjávarfangið. Bætið þá við söxuðu tómötunum. Sáldrið paprikuduftinu yfir. Bætið síðan baununum, saffran og salti út á pönnun ásamt smá soði. Látið malla í nokkrar mínútur.

Bætið þá hrísgrjónum saman við, dreifið vel úr þeim og bætið við megninu af soðinu. Látið malla í um tuttugu mínútur eða þar til grjónin eru soðin og bætið við soði eins og þarf.

Látið jafna sig í smá stund áður en borið er fram. Gott er að hafa grænt salat með.

Deila.