Bresk myntusósa

Bresk matargerð er ekki sú þekktasta í heimi og fáar breskar uppskriftir njóta alþjóðlegrar hylli. Einhver breskasta uppskrift sem fyrirfinnst er myntusósan sem að mati Breta er ómissandi með lambakjöti á hátíðisdögum og nýtur einnig töluverðra vinsælda í Bandaríkjunum. Uppruni sósunnar hefur verið rekin allt aftur til miðalda.

Myntusósan byggir á samspili sýru úr ediki, sætu og að sjálfsögðu myntu og eru skiptar skoðanir og oft harðar deilur um hver hlutföllur sætu og sýru eigi að vera.

  • 1 dl vatn
  • 1/2 dl vínedik
  • 1 dl myntublöð, mjög fínt söxuð
  • 1-2 msk púðursykur (eftir því hvað þið viljið hafa hana sæta)

Hitið vatni í potti og leysið upp sykurinn í vatninu. Leyfið suðu að koma upp og sjóðið í um þrjár mínútur. Blandið ediki og myntu saman við sykurvatnið.  Látið sósuna kólna örlítið og berið fram.

Tilvalin með grilluðum lambakótilettum eða ofnbökuðu lambalæri. Sýran í sósunni gerir að verkum að hún spilar merkilega vel með ungum og tannískum rauðvínum.

Þegar sósan hefur kólnað er einnig hægt að blanda henni saman við gríska jógúrt og bera fram sem myntu-raita.

Deila.