Austurlenskur kjúklingur með karrí- og möndlusósu

Það er austurlenskur bragur yfir þessum kjúklingarétti sem sækir ekki síst innblátur til indversku matargerðarinnar. Með þessu er gert heimatilbúði döðluchutney.

Fyrir 6

Döðlu – chutney

 • 1 laukur
 • 5 hvítlauksrif
 • 1 grænn chilli
 • 30 g fersk mynta
 • 10 steinlausar ferskar döðlur
 • 1 dl fetaostur í olíu
 • 1 tsk hunang
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 2 dl grísk jógúrt
 • 2 tsk rifið ferskt engifer
 • Salt og svartur pipar

Kjúklingabringur

 • 6 kjúklingabringur skornar í tvennt
 • Smjör og ólífuolía til steikingar
 • 1 tsk Tandoori Masala
 • 1 tsk Arabískt kjúklingakrydd
 • 2 tsk Indverskt dukkah með salthnetum og karríi
 • 1 msk sætt mangó chutney

Karrí- og möndlusósa

 • Smjörklípa og 1 msk ólífuolía
 • 1 dl hakkaðar eða grófsaxaðar möndlur
 • 3 tsk milt karrí
 • 1 stk gult epli (kjarnhreinsað og saxað)
 • 1 stk saxaður laukur
 • 100 gr. saxaðir sveppir
 • 2 dl kjúklingasoð

Aðferð:

Byrjið á því að gera döðlu-chutney  með því að setja allt hráefnið í matvinnsluvél, þ.e. laukinn, hvítlaukinn, græna chillíinn, fersku myntuna, döðlurnar (muna að taka úr steinana!) fetaostinn í olíunni og hunangið.

Meðan þetta maukast í matvinnsluvélinni er ágætt að skera kjúklingabringurnar í tvennt, jafnvel þrennt, og setja í gott ílát til marineringar.

Takið 3-4 matskeiðar af döðluchutney og makið á kjúklinginn. Veltið kjúklingabitunum vel upp úr blöndunni og látið í kæli til mareneringar, amk 3-4 klukkutíma, jafnvel lengur.

Takið síðan afganginn af döðlutjötneyinu, setjið í skál og blandið saman við sýrða rjómann og gríska jógúrtið. Ef ykkur finnst blandan of sterk má setja meira af sýrða rjómanum og grísku jógúrtinni. Smakkið til með salti og svörtum pipar og rífið loks ferskan engifer yfir tjötneyið. Kælið.

Þá er komið að karrí- og möndlusósunni. Blandið saman á pönnu smjöri og ólífuolíu og setjið fyrst söxuðu möndlurnar á pönnuna og ristið í smá stund. Bætið síðan við sveppum, lauk og eplum og kryddið með karrínu, salti og pipar. Hellið síðan kjúklingasoðinu yfir pönnuna og látið krauma í fáeinar mínútur.  Takið af pönnunni og setjið til hliðar meðan kjúklingurinn er steiktur.

Bræðið smjör og ólífuolíu á pönnu ásamt Tandori Masala kryddinu, arabíska kjúklingakryddinu og indversku dukkah kryddinu með salthnetum og karríi. Leyfið þessu að blandast vel á pönnunni áður en kjúklingurinn er tekinn úr mareneringunni og settur á pönnuna. Steikið kjúklinginn í nokkrar mínútur og bætið í lokinn við matskeið af sætu mangó chutney.

Takið þessu næst kjúklinginn af pönnunni og setjið í eldfast mót. Smyrjið karrí- og möndlusósunni yfir kjúklinginn og bakið í ofni í uþb hálftíma við 170 gráður.

Döðlu chutney fer vel með þessum rétti ásamt annað hvort hrísgrjónum með steiktu grænmeti, eða sætum kartöflum krydduðum með chillíi og rósmaríni. Einnig er gott að bera fram naanbrauð með réttinum og ferskt grænmeti.

Með þessum rétti hentar ávaxtaríkt hvítvín með góðri sýru og jafnvel örlítilli sætu. Reynið t.d. Villa Loosen Riesling.

Deila.