Það er margt á ferðinni hér. Kjúklingurinn tekur í sig bragðið úr kryddjurtunum og víninu og margs konar kryddjurtir koma við sögu í sósunni. Augnbaunirnar eða Black Eyed Peas kóróna síðan réttinn. Ef það verður afgangur af baununum er gott að mauka þær ásamt góðri ólívuolíu og nota daginn eftir með einhverju öðru.
Kjúklingurinn
- 4 kjúklingabitar á beini, læri og leggur eða bringa
- 4 vænir hvítlauksgeirar, saxaðir
- 2 rósmarínstönglar
- 2 timjanstönglar
- lúka salvía
- 4 dl hvítvín
Setjið kjúklingabitana í þykkan pott sem má fara inn í ofn, t.d. góðan pottjárnspott. Setjið kryddjurtirnar í pottinn. Rósmarínstöngla, timjan og salvíu. Sáldrið söxuðum hvítlauknum yfir, saltið og piprið. Hellið loks smá af ólívuolíu yfir kjúklinginn.
Setjið inn í 180 gráðu heitan ofn. Eftir 15 mínútur er kjúklingabitunum snúið við og víninu hellt yfir. Eldið áfram í 30 mínútur. Takið þá kjúklinginn úr pottinum, setjið á fat og inn í ofninn aftur. Athugið eldunarstigið. Ef hann er fulleldaður slökkvið þið á hitanum, ef hann þarf aðeins lengri tíma til að ná fullri eldun er hita haldið áfram á ofninum.
Kryddjurtasósa
- 3 dl matreiðslurjómi/ 2,5 dl rjómi
- kjúklingasoðið
- búnt steinselja
- búnt basil
- búnt estragon
- búnt graslaukur
- búnt mynta
Setjið pottinn sem kjúklingurinn var í á eldavélina. Blandið rjómanum saman við vínsoðið og sjóðið niður þar til sósan fer að þykkna.
Fyllið matvinnsluvél með ferskum kryddjurtum. Hlutföllinn skipta ekki meginmáli en best er að hafa steinselju og basil ríkjandi. Maukið.
Slökkvið á hitanum á sósunni. Blandið kryddjurtamaukinu saman við. Bragðið til með salti og pipar.
Augnbaunir með lauk
- 450 g augnbaunir
- 1 stór rauðlaukur, grófasaxaður
- 4 hvítlauksgeirar, saxaðir
- búnt steinselja, saxað
- hágæða ólívuolía
- salt og pipar
Látið baunirnar liggja í bleyti og sjóðið síðan samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Mýkið lauk og hvítlauk í ólívuolíu á pönnu. Blandið baununum saman við. Hitið þær aftur. Blandið saxaðri steinseljunni saman við, saltið og piprið. Hellið loks góðri ólívuolíu yfir.
Það þarf svolítið kröftug og sveitalegt vín með, franskt eða ítalskt, t.d. Rhone-vínið Perrin Cotes-du-Rhone Villages.