Hreindýramedalíur á seljurótarbeði

Villbráð hæfir hátíðum eins og áramótum og fátt jafnast á við safaríka léttsteikta hreindýrasteik af lund eða hryggjarvöðva (file). Mestu skiptir tvennt: að forðast ofeldun og að láta kjötið jafna sig eftir steikingu, tíu mínútur hið minnsta.

Á veisluborði eins og við jól og áramót þar sem margir bjóða þríréttaðan kvöldverð er engin ástæða til að miða við meira en 200 gr. steikur á mann að hámarki. Þetta er einföld uppskrift af hreindýramedalíum á seljurótarbeði sem borin er fram með rauðvínssósu. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Byrjað er á seljurótarmaukinu og sósunni áður en kjötið er steikt enda tekur það stuttan tíma.

Seljurótarmauk

 • 1 seljurót (sellerírót)
 • 1 skalottulaukur
 • olífuolía
 • salt og pipar
 • 1 dl rjómi

Seljurótin er flysjuð og skorin í teninga, laukurinn flysjaður og skorinn smátt. Seljurótin og laukurinn eru síðan steikt í olíu í nokkrar mínútur og krydduð með salti og pipar. Að því búnu er rjómanum hellt yfir og soðið uns seljurótin er orðin mjúk. Þetta er síðan sett í matvinnsluvél og maukað vel. Ef maukið er of þykkt má bæta við lítilsháttar rjóma og bæta við nýmöluðum pipar og salti eftir smekk og tilfinningu.

Rauðvínssósa með lauk og beikoni

 • 2 msk ólífuolía
 • 4 sneiðar smátt skorið beikon
 • 10 skrældir perlulaukar
 • 10 niðursneiddir sveppir
 • 1 tsk fínt skorið ferskt timjan
 • 2 lárviðarlauf
 • 1 tsk tómatpuré
 • 4 dl rauðvín
 • 2 msk rauðvínsedik
 • 4 dl villibráðarsoð
 • sósujafnari
 • 30 gr kalt smjör
 • salt og nýmalaður svartur pipar

Beikon, laukur og sveppir eru svissaðir á pönnu í fáeinar mínútur. Lárviðarlaufi, timjan, tómatpúré, rauðvíni og rauðvínsediki er síðan bætt á pönnuna og soðið niður um þrjá fjórðu. Því næst er villibráðarsoðinu bætt við og þykkt með sósujafnara. Þá er potturinn tekinn af hitanum og smjörinu bætt saman við sósuna. Hrært í þangað til smjörið hefur bráðnað og sósan að lokum smökkuð til með nýmöluðum svörtum pipar og salti. Gætið þess að sósan má alls ekki sjóða eftir að smjörið er komið saman við.

Hreindýramedalíur

Skerið lundina eða hryggjarvöðvann í tvær 400 gr. steikur, kryddið með nýmöluðum svörtum pipar og salti og steikið á öllum hliðum í eina mínútu á snarpheitri pönnu. Takið steikurnar og setjið í 180gráðu heitan ofn í 5-7 mínútur og takið síðan kjötið út úr ofninum, vefjið í álpappír og látið steikurnar jafna sig í að minnsta kosti 10 mínútur. Skerið þá lungamjúkar steikurnar í átta 100 gr. medalíur.

Rétturinn er borinn fram þannig að seljurótarmaukið er smurt á diskinn og steikurnar settar snyrtilega ofan á; sósunni hellt allt um kring. Skreytt með fersku timjani.

Með hreindýri smellpassa öll bestu rauðvínin, reynið t.d. með hinu spænska Malpaso.

Deila.