Saltfiskur með mjúkum kartöflum

Saltfiskur gefur veirð sannkallaður herramannsmatur, ekki síst þegar hann er eldaður að hætti Spánverja og Portúgala. Hér er hann á beði úr rjómaelduðum kartöflum með steinselju og svörtum ólívum.

  • 500 g vel útvatnaður saltfiskur, helst þykk hnakkastykki
  • 2-3 stórar bökunarkartöflur
  • 2 laukar
  • 6 hvítlauksgeirar
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 5 dl fiskisoð
  • 1 búnt steinselja, fínsöxuð
  • 1 lúka svartar ólífur, saxaðar
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið kartöflurnar og laukinn í þunnar skífur. Hitið nokkrar matskeiðar af olíu á pönnu. Byrjið á því að mýkja laukinn. Þegar hann fer að taka á sig brúnan lit er kartöfluskífunum bætt saman við ásamt 4 fínt söxuðum hvítlauksgeirum. Steikið með lauknum í 3-4 mínútur. Hellið fiskisoðinu út á  og sjóðið alveg niður. Bætið þá matreiðslurjómanum út á pönnuna og sjóðið þar til að úr verður þykkt mauk. Merjið kartöflurnar með sleif. Passið upp á að þær brenni ekki við botninn.

Setjið saltfiskinn í eldfast form, penslið með olíu og setjið 2 saxaða hvítlauksgeira með. Bakið í 15-20 mínútur við 200 gráður, allt eftir þykkt stykkjanna.

Setjið kartöflumaukið á disk. Saltfisk yfir. Sáldrið þá vel af steinselju og söxuðum ólífum yfir. Til að kóróna þetta er gott að setja smá af hágæða ólífuolíu á hvern disk.

Berið fram með góðu spænsku hvítvíni, t.d. Baron de Ley Blanco.

Deila.