LA borgari með sultuðum lauk og sætum kartöflufrönskum

LA borgarinn barst til okkar í gegnum lesanda síðunnar sem hafði nokkrum sinnum eldað þennan magnaða borgara samkvæmt uppskrift sem er að finna í stórskemmtilegri matreiðslubók með uppskriftum frá starfsfólki Íslandsbanka sem kom út fyrir nokkrum árum. Í bókinni kemur fram að uppskriftin eigi rætur að rekja til veitingastaðar í LA þar sem einungis einn borgari er á matseðlinum.

Rannsóknir okkar benda til að fyrirmynd borgarans í bókinni hljóti að vera hinn magnaði Office Burger sem fáanlegur er á veitingastaðnum Father’s Office á Helms Avenue í Los Angeles og útibúi staðarins í Santa Monica. Þetta er agnarsmár „gastropub“ og borgarinn er frægur. Uppskriftin er hins vegar leyndarmál en hér byggjum við á uppskriftinni í fyrrnefndri matreiðslubók auk þess að styðjast við tilraunir sérfræðinga Los Angeles Times sem einnig reyndu að endurgera uppskriftina

 • 800 g vel hangið, afbragðs nautakjöt, t.d. ribeye (eða nautahakk)
 • ciabatta-brauð eða heimabakað hamborgarabrauð
 • Gráðaostur
 • Sultaður laukur (sjá uppskrift að neðan)
 • Klettalat
 • 1 tsk salt

Hakkið kjötið. Blandið varlega saman við saltið og mótið í 4 x 200 g hamborgara. Steikið eða grillið borgarana. Setjið vænan skammt af gráðaosti ofan á þá í lokin.

Skerið ciabatta-brauðið niður, það getur verið ágætt að taka aðeins innan úr því. Setjið vænan skammt af sultuðum lauk á brauðið, þá hamborgarann og klettasalat. Lokið brauðinu og berið fram sætum kartöflufrönskum.

Sultaður laukur

 • 2 laukar
 • 100 g beikon
 • 3 msk púðursykur
 • 2 msk balsamikedik
 • 1 tsk tómatsósa
 • salt og pipar

Byrjið á því að steikja beikonið í um 5 mínútur. Takið þá beikonið af pönnunni. Saxið 4 beikonsneiðar niður og geymið. Afganginn geymið þið til annarra nota. Skiljið eftir um 2 msk af beikonfitunni.

Sneiðið niður laukinn og steikið í beikonfeitinni ásamt púðursykrinum í um 10 mínútur. Bætið þá við saxaða beikoninu og steikið í um 15 mínútur í viðbót. Undir lokinn er balsamik og tómatsósu bætt saman við og bragað til með salti og pipar.

Sætar kartöflufranskar

 • 2 sætar kartöflur
 • ólívuolía
 • ein dós hvítlauksrjómaostur
 • ein dós sýrður rjómi

Skerið kartöflurnar í ræmur og setjið í eldfast mót. Hellið olíunni yfir og sjávarsaltinu. Bakið kartöflurnar við 220-250 gráður í ofni í um 30 mínútur. Einnig má auðvitað djúpsteikja þær.

Blandið hvítlauksrjómaostinum og sýrða rjómanum saman og berið fram með frönskunum. (Á Father’s Office er það tartar sósa sem kemur með).

Fullt af hamborgarauppskriftum til viðbótar finnið þið hér.

Lumar þú á frábærri hamborgarauppskrift? Sendu okkur hana á vinotek@vinotek.is

 

Deila.