Önd með franskri plómusósu

Önd á einstaklega vel við sósur úr berjum og ávöxtum. Plómusósur eru til í mörgum útgáfum með önd og sú þekktasta er líklega sú kínverska sem notuð er með Peking-önd. Hér gerum við hins vegar franska plómusósu sem er borin fram með niðursneiddum andarbringum, spínati og kartöflumús.

Fyrir fjóra þarf 2-3 andarbringur. Eldið þær samkvæmt þessum leiðbeiningum hér.

Plómusósa

  • 4 plómur
  • 1/3 dl koníak
  • 1 msk sojasósa
  • 2 dl rauðvín
  • 3 dl andarsoð eða nautasoð
  • 1 msk hrásykur
  • 2 skalottulaukar, fínsaxaðir
  • ólívuolía

Hitið olíuna í þykkum potti eða á pönnu. Mýkið skalottulaukin í 7-8 mínútur á miðlungshita eða þar til að hann byrjar að dökkna (hann á ekki að verða brúnn).

Skerið plómurnar í tvennt og hreinsið steininn úr. Skerið hvern helming í fjóra báta. Bætið plómubitunum út í pottinn ásamt hrásykrinum. Veltið um þar til að sykurinn hefur bráðnað. Hækkið þá hitann og bætið koníakinu út á. Um mínútu síðar er rauðvíni, heitu soðinu og sojasósu bætt út á pönnuna. Látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið malla í um 20-25 mínútur. Leyfið sósunni að kólna aðeina og maukið síðan, annað hvort með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Hitið upp áður en hún er borin fram. Það er tilvalið að gera sósuna fyrr um daginn og geyma.

Spínat

  • 1 stór poki spínat

Hitið 1 msk olíu á pönnu. Hellið spínatinu út á pönnuna og veltið um með sleif þar til það er orðið mjúkt.

Skerið loks bringurnar niður í sneiðar og setjið á disk ásamt sósu og spínati. Með þessu er tilvalið að hafa kartöflumús.

Rauðvín úr Pinot Noir er tilvalið með t.d. hin nýsjálensku Dog Point og Spy Valley.

 

Deila.