Saltfiskur Ibérico

Saltfiskur er eitthvert besta hráefni sem að við eigum og það kunna engir betur að eiga við hann en Spánverjar. Hér er hins vegar ekki síður sótt til Suður-Ítaliu varðandi samsetninguna. Það magnaða við þennan rétt er hvernig brögðin renna saman og ekkert eitt verður ríkjandi. Þetta er líka uppskrift þar sem að magnið, t.d. af sólþurrkuðum tómötum, ólívum og hvítlauk er ekki heilagt.

  • 2 hnakkastykki
  • 1-2 tsk chiliflögur (peperoncino)
  • 6-8 hvítlauksgeirar
  • sólþurrkaðir tómatar
  • svartar ólívur
  • lúka af capers
  • rifinn börkur af einni sítrónu
  • 1 dós ansjósur
  • 1.5 dl þurrt hvítvín
  • 50 g pancetta (ítalskt beikon)
  • sesamolía
  • ólívuolía

Saltfiskurinn er settur í eldfast mó sáldrað yfir hann þurrkuðum muldum peperoncino; raðað yfir hann næfurþunnt sneiddum hvítlauk, góður skammtur; sólþurrkaður tómatur í ræmum lagður þvert á fiskinn; og dreift yfir hann niðursneiddum svörtum ólívum. Sesamolíurák eftir endilöngu flakinu, ólívuolía með.

Bakað í ofni í 25 mín við 200 gráður.

Á meðan er ólívuolía sett í þykkanpott, botnfylli. Góður slatti af capers látinn ofaní; Pancetta skorin í litla kubba: capersið og pancettan steikt í olíunni smástund (capersið smitar útí oíuna og pancettan soðnar frekar en steikist), þá ein dós af ansjósum maukuð og rifin börkur af einni sítrónu; þegar þetta hefur bráðnað og samlagast er hvítvíni sett útí oglátið sjóða niður í 1-2 mín.

Takið saltfiskinn úr ofninum og hellið sósunni yfir fiskinn.

Með þessu er gott að hafa ferskt salat og rósmarínkubbaðar kartöflur.

Rósmarínkubbaðar kartöflur

Skerið 1-2 bökunarkartöflur í litla teninga. Setjið í ofnfast form ásamt 1 grófsöxuðu hvítlauksrifi, lúku af fersku rósmarín eða 1 msk af þurrkuðu, salti, pipar og slatta af ólívuolíu. Bakið í um 40 mínútur.

Deila.