Farro er ítölsk korntegund, spelt, sem á sér langa og merkilega sögu. Þetta er til að mynda kornið sem að hélt sveitum Rómverja á lífi þegar þeir þrömmuðu um Evrópu. Farro minnir um margt á bygg en er bragðmeira og aðeins harðara undir tönn. Farro fæst t.d. í Frú Laugu en einnig er hægt að nota Bankabygg.
- 3 dl Farro
- 2 paprikur
- 1 kúrbítur
- 1 eggaldin
- 4 hvítlauksgeirar, pressaðir
- safi úr 1/2 sítrónu
- væn lúka af kryddjurtum (steinselja, basil, óreganó)
- skvetta af ediki
- ólívuolía
- maldonsalt og nýmulinn pipar
Skerið paprikuna, kúrbít og eggaldin niður í grófa bita. Veltið upp úr ólíuolíu og pressuðum hvítlauk. Grillið í grillkörfu eða á álpappír. Best er að byrja á paprikunum þar sem að þær þurfa lengstan tíma og bæta síðan kúrbít og eggaldin við.
Hitið 3 dl af Farro í 6-7 dl af vatni. Látið suðuna koma upp og leyfið síðan að malla í um 20 mínútur.
Saxið kryddjurtirnar.
Þegar grænmetið er tilbúið á grillinu er það sett á skurðbretti, hellið skvettu af góðu ediki yfir, t.d. estragonediki eða síderediki, saxið betur niður og setjið í skál ásamt fínsöxuðum kryddjurtunum.
Blandið Farro saman við ásamt ólívuolíu og sítrónusafa. Bragðið til með salti og pipar.