Semifreddo með Limoncello

Semifreddo mætti kannski þýða sem hálfkældur úr ítölskunni en þetta er samheiti yfir eftirrétti sem líkja mætti við eins konar ískökur og eiga það sameiginlegt að verða aldrei jafnharðir og venjulegur ís.

  • 20 makkarónur
  • 40 g smjör
  • 8 eggjarauður
  • 1,5 dl sykur
  • 1/2 dl nýkreystur sítrónusafi
  • safi úr 1/2 lime
  • 2 msk Limoncello
  • rifinn börkur af 1 lime
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 2,5 dl rjómi
  • klípa af salti

Bræðið smjörið. Myljið makkarónurnar og blanið saman við smjörið. Geymið.

Þeytið saman eggjarauður, sítrónusafann, limesafann, limoncello, 1 dl af sykri og salti. Best er að gera þetta í stálskál því næst fer blandan í vatnsbað.

Hitið skálina í vatnsbaði og þeytið áfram þar til að blandan verður þykk (gæti tekið 3-4 mínútur). Takið skálina úr vatnsbaði og kælið með því að setja ofan í aðra skál með ísvatni. Blandið rifna sítrónu- og limeberkinum saman við.

Þeytið rjómann saman við 0,5 dl af sykri. Blandið þeytta rjómanum saman við eggjablönduna.

Setjið plastfilmu ofan í jólakökuform, það er gert til að auðveldara verði að ná ísnum úr forminu. Þekjið botninn með makkarónublöndunni. Setjið næst rjómablönduna í formið. og lokið með plastinu. Frystið í a.m.k. 8-10 tíma.

Þegar bera á Semifreddo fram er togað í plastið til að losa ísinn úr forminu og honum síðan hvolft ofan á disk.

 

 

Deila.