Rabarbaraís

Rabarbari er mjög fínn til ísgerðar og þessi uppskrift áskotnaðist okkur á nýlegri ferð um Norðurland þar sem boðið var upp á þennan líka fína ís eftir matinn. Eini gallinn við rabarbarann í ísgerð er að hann er ekki mjög fallegur á litinn, grágrænn lýsir því líklega best. Nokkrir dropar af matarlit bjarga því hins vegar.

  • 500 g rabarbari
  • 225 g sykur
  • 4 eggjarauður
  • 60 ml mjólk
  • 2,5 dl rjómi
  • (2 msk rifinn engifer)
  • rauður matarlitur

Skerið rabarabarann í bita og sjóðið ásamt um 150 g af sykri og 0,25 dl vatni í 15-20 mínútur. Það er líka gott að hafa 2 msk af rifnum engifer með. Maukið í matvinnsluvél og sigtið í gegnum fínt sigti.

Pískið eggjarauður, mjólk og afganginum af sykri saman. Hitið í potti þar til að blandan byrjar að þykkna.

Léttþeytið rjómann. Blandið saman við eggjablönduna og rabarbarann.Ef þið viljið nota matarlit er hann settur út í á þessu stigi, dropi og dropi í einu þar til að þið eruð sátt við litinn. . Það þarf ekki marga dropa.

Setjið í ísvél eða í form og í frysti.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.

Deila.