Shawarma-kjúklingur með tahini-jógúrtsósu

Shawarma er vinsæl aðferð við að matreiða í Mið-Austurlöndum. Kjöt er látið liggja í kryddlegi og síðan grillað og loks skorið niður og borið fram með pítabrauði. Hér er útgáfan okkar af Shawarma-kjúklingi.

500 g kjúklingur, lundir eða úrbeinuð læri

Kryddlögur

  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk reykt paprika
  • 1 tsk kardimomma
  • 1 tsk cayennepipar
  • 1 tsk kóríander
  • 3 pressuð hvítlauksrif
  • safi úr einni sítrónu
  • 3 msk grísk jógúrt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Blandið saman í skál. Veltið kjúklingnum saman við og geymið í ísskáp í nokkrar klukkustundir.

Tahini-jógúrtsósa

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 dl tahini
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1 msk nýpressaður sítrónusafi
  • 1 tsk cummin
  • klípa af salti

Blandið öllu vel saman og geymið í kæli. Það er best að gera sósuna með smá fyrirvara þannig að brögðin nái að blandast vel saman.

Takið kjúklinginn úr kryddleginum og eldið á pönnu eða grilli. Á meðan eru undirbúnar steiktar paprikur og laukur.

  • 2 paprikur, helst mislitar upp á „lúkkið“
  • 1 vænn laukur

Skerið paprikuna í ræmur og laukinn í skífur. Hitið olíu á pönnu og mýkið lauk og papriku á miðlungshita í um tíu mínútur.

Þegar búið er að elda kjúklinginn er hann skorinn í litlar sneiðar og borinn fram með sósunni, paprikunum, grilluðu (eða ristuðu) pítubrauði og góðu salati t.d.tómatasalati.

Deila.