Kjúklingur með mascarpone-sítrónusósu

Þessi kjúklingaréttur endurspeglar hinn stórfenglega einfaldleika ítalska eldhússins þar sem að á einhvern undaverðan hátt verður veisla til úr nær engu. Þessi réttur var m.a. á boðstólum á hinu frábæra ítalska veitingahúsi River Cafe í London á sínum tíma.

  • 1 kjúklingur
  • 125 g (hálf dós) mascarpone-ostur
  • 2-3 msk saxað, ferskt rósmarín
  • safi úr 1 1/2 sítrónu
  • olífuolía
  • salt og pipar

Saxið rósmarín og blandið saman við mascarponeostinn. Bútið kjúklinginn í fjóra bita. Losið skinnið frá við bringu og læri með því að ýta putta undir. Troðið osta- og rósmarínblöndunni undir.

Hitið olíu á pönnu. Brúnið bitana í 3-4 mínútur. Osturinn fer að leka úr, hafið ekki áhyggjur af því.

Setjið pönnuna inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið í 20 mínútur. Takið þá pönnuna úr og setjið á eldavélina á miðlungs hita. Pressið sítrónusafann yfir og hrærið í með sleif þannig að hann blandist saman við vökvann á pönnunni. Veltið kjúklingabitunum upp úr sósunni. Bragðið til með salti og pipar.

Berið fram með t.d. ofnbökuðum kartöflubitum.  Það er líka hægt að velta t.d. spaghetti upp úr sósunni. Með þessu gott ítalskt rauðvín á borð Il Poggione Rosso di Montalcino.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.

Deila.