Pestó lasagna

Pestó lasagna er rammítalskur pastaréttur og vinsæll víða í sveitum þess fallega lands. Það er hvorki kjöt né tómatasósa í þessu lasagna en þess í stað heimatilbúið pestó og hvít béchamel-sósa eða besciamella eins og Ítalir myndu kalla hana.

Við mælum með því að nota ferskar lasagnaplötur í þennan rétt en einnig þarf um 50-70 g af Parmesanosti auk þess sem notaður er í pestóið.

Uppskrift að pestó er hér.

Besciamella

  • 2 msk smjör
  • 2 msk hveiti
  • 1 líter mjólk
  • rifin múskathneta
  • salt og pipar

Bræðið smjörið í þykkum potti og hrærið síðan hveitinu saman við. Hrærið áfram í á meðan hveitið eldast í um tvær mínútur. Passið upp á hitann, það má ekki brenna.

Best er að vera búinn að hita mjólkina áður en hún fer í pottinn. Setjið fyrst um þriðjung af mjólkinni saman við og pískið vel saman við hveitið, það er mikilvægt að píska vel til að ekki myndist kekkir í sósunni. Bætið síðan næsta þriðjungi, pískið saman og síðan restinni. Hitið upp að suðu, lækkið hitann og leyfið að malla á vægum hita í um korter. Hrærið reglulega í og passið upp á að sósan festist ekki við botninn.

Rífið smá múskahnetu og blandið saman við. Bragðið til með salti og pipar.

Þegar þið eruð búinn að gera sósuna og pestóið er komið að því að raða öllu saman í ferkantað eldfast mót. Byrjið á því að smyrja botninn með aðeins af besciamella-sósunni. Þá kemur fyrsta lagið af lasagna-plötum. Ef þið notið ferskt pasta er einfalt að klippa þær til þannig að þær þekji botninn nákvæmlega. Þegar fyrsta lagið er komið er smá besciamella smurt yfir og um tvær matskeiðar af pestói. Rífið síðan vel af parmesan-osti yfir. Þá er komið að næsta lagi og þið farið eins að þar. Efsta lagið er síðan smá besciamella og pestó og vænn skammtur af osti. Setjið nokkrar örlitlar smjörklípur með.

Eldið við 200 gráður í 30 mínútur.

Deila.