Karamellur með sjávarsalti

Það er ótrúlegt hvað smávegis af sjávarsalti gerir fyrir karamellur. Hér styðjumst við við uppskrift frá henni Inu Garten en hægt er að nota Maldonsalt, Reykjanessalt eða annað gott sjávarsalt. Að maður tali nú ekki um ekta Fleur du Sel.

  • 3,5 dl sykur
  • 1/2 dl ljóst síróp
  • 2,5 dl rjómi
  • 70 g ósaltað smjör
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1/2 tsk vanilludropar

Setjið síróp og sykur á stóra, þykka pönnu ásamt hálfum deilítra af vatni. Hitið varlega upp að suðu. Látið sjóða varlega þar til að blandan er orðin gullinbrún. Blandið saman með því að velta pönnunni um.

Samhliða er rjóminn settur í pott ásamt smjöri og salti og hitaður varlega upp að suðu. Þegar að suðan kemur upp er potturinn tekinn af hitanum.

Blandið rjómablöndunni varlega saman við heita sykurblönduna. Hrærið vanilludropunum saman við með trésleif. Hitið upp á lágum til miðlungshita og látið malla í um tíu mínútur eða þar til karamellan hefur 125 gráðum.

Setjið smjörpappír í ferkantað form (ca 20 sm breitt) þannig að hann þekji botninn og aðeins upp með hliðunum.

Hellið karamellunni varlega í formið ofan á smjörpappírinn. Kælið í ísskáp þar til að karamellan hefur stífnað vel, gjarnan yfir nótt.

 

Losið úr forminu og setjið á skurðbretti. Skerið í litlar karamellur og sáldrið smá sjávarsalti yfir.

Berið fram eða geymið í ísskáp og berið fram kaldar. Það er líka hægt að vefja karamellunum inn í smjörpappír.

Deila.