Indverskur kjúklingur að hætti Chandriku

Chandrika Gunnarsson á Austur-Indíafjelaginu hefur gert meira en nokkur annar á síðustu áratugum til að kynna Íslendingum undur matargerðar Indlands. Þessi uppskrift sem við fengum frá henni er hins vegar ekki frá veitingastaðnum heldur uppskrift sem að hún ólst upp við í æsku á heimili hennar í Coorg í Suður-Indlandi. Rétturinn heitir Koli Nallamallu Fry og það er hægt að nota bæði heilan kjúkling bútaðan í bita sem kjúklingabringur skornar í sneiðar. Bestur og safaríkastur verður hann með því að nota kjúklinginn á beini.

 • 1 kjúklingur bútaður niður í bita
 • 1 laukur
 • 1 dl vatn
 • salt

Skerið laukin í sneiðar. Hitið olíu  á pönnu og mýkið lauksneiðarnar á miðlungshita. Hækkið hitann, bætið kjúklingabitunum út á pönnuna og brúnið vel. Þegar kjúklingurinn hefur tekið á sig góðan lit er hitinn lækkaður, vatninu bætt út ásamt klípu af salti og kjúklingurinn eldaður þar til hann er nær tilbúinn. Á meðan er kryddmaukið undirbúið.

Kryddmauk

 • 1 msk tamarind (tamarind pulp – fæst í asískum verslunum)
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • 1 grænn chilibelgur
 • 50 g ferskur kóríander
 • 2 tsk piparkorn
 • 4 hvítlauksrif
 • 2-3 sm engiferrót
 • 1/4 tsk túrmerik

Samkvæmt upphaflegu uppskriftinni er þetta allt saxað niður smátt og kryddin mulin í mortelinu. Við leyfðum okkur að setja þetta í matvinnsluvél og mauka hratt saman.

Þegar kjúklingurinn er nær tilbúinn er kryddmaukinu bætt út á og steikt með kjúklingnum þar til að það fer að skilja sig frá olíunni. Eldið áfram þar til að kjúklingurinn er nær fulleldaður.

Berið fram með basmatigrjónum. Okkur fannst líka gott að hafa raíta eða kóríanderraíta með.

Fjölmargar fleiri indverskar uppskriftir má finna með því að smella hér. 

Deila.