Andarbringur með appelsínusósu

Önd nýtur mikilla og vaxandi vinsælda í íslenskum eldhúsum og ef einhverjir kunna að elda önd þá eru það Frakkar. Og ef einhver uppskrift að önd er klassísk þá er það önd á l’orange eða önd með appelsínusósu. Önd er hægt að elda annars vegar í heilu lagi eða þá annað hvort bringurnar eða lærin. Ef þið vijið elda heila önd með appelsínusósu alveg frá grunni þá er klassísk uppskrift hér. Svo er líka hægt að stytta sér leið eins og við gerum hér og elda einungis bringurnar af öndinni og gera einfaldari en samt algjörlega „bragðekta“ útgáfu af appelsínusósunni.

Hvað bringurnar sjálfar varðar þá er best að fylgja þessum leiðbeiningum hér varðandi hvernig á að elda þær. Það er auðveldara en margir halda að elda andarbringur.

Auðveld appelsínusósa

  • 2 skalottulaukar, mjög fínt saxaðir
  • 5 dl gott kjötsoð, kálfa-, nauta eða anda. Ef þið eigið ekki heimatilbúið soð er hægt að nota góðan kraft. Til að ná toppárangri er gott að sjóða kraftinn niður með smá söxuðu selleríi, saxaðri gulrót, lárviðarlaufi og jafnvel stöngul eða tvo af kryddjurt á borð við timjan til að ná bragðmeira soði.
  • 1,5 dl púrtvín
  • 1/2 dl appelsínusafi (helst nýpressaður)
  • 1/2  dl appelsínulíkjör (Grand Marnier)
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk sykur
  • hvítur pipar
  • smjör

Hitið 1 msk smjör á pönnu eða þykkum potti og mýkið skalottulaukinn í nokkrar mínútur á miðlungshita, hann á ekki að brúnast. Kryddið með hvítum pipar. Hellið sojasósu, víni og soði í pottinn og sjóðið niður um að minnsta kosti helming. Hellið í gegnum sigti og geymið.

Bræðið sykurinn í potti, þegar að hann fer að brúnast er appelsínusafanum og appelsínulíkjörnum bætt saman við. Sjóðið niður í 2-3 mínútur. Hellið þá soðinu saman við og sjóðið saman áfram. Þegar að sósan hefur náð þeirri þykkt og því bragðið sem að þið viljið fá er gott að setja nokkrar flysjaðar appelsínusneiðar út í og loks er vænni msk af köldu smjöri pískað saman við og sósan borin fram ásamt appelsínubitunum .

Berið fram með kartöflum – t.d. kartöflukrókettum eins og má finna hér eða pressuðum kartöflum steiktum í andarfitu.

Góð Bordeaux-vín eru auðvitað klassísk með appelsínuönd. Við prufuðum hins vegar hið suðurfranska Chateau Sauvageonne með appelsínusósunni og það var algjörlega fullkomin pörun.

Deila.