Humarsoð

Gott humarsoð er mikilvægur og nauðsynlegur grunnur í góðar sósur og humarsúpur. Það er auðvitað nauðsynlegt að eiga humarskeljar. Það er því hægt annaðhvort að skelhreinsa humarinn einhverjum klukkustundum áður en á að elda hann til að ná skeljunum eða þá að sýna fyrirhyggju og frysta skeljar þegar verið er að hreinsa humar þannig að maður eigi ávallt til skeljar í gott soð. Síðan er líka tilvalið að frysta afgangssoð.

  • 15-20 humarskeljar
  • 2 laukar, grófsaxaðir
  • 1 gulrót, söxuð
  • smá steinseljurót, söxuð
  • 2-3 msk tómatapúrra
  • 1 tsk fennel
  • 1 tsk óreganó
  • smjör
  • pipar

Hitið smjörið í þykkum potti. Byrjið á því að steikja grænmetið í 4-5 mínútur. Bætið þá humarskeljunum saman við og brúnið þar til þær taka á sig lit. Þá er kryddunum og tómatapúrrunnu bætt saman við ásamt um 2 lítrum að vatni. Leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá hitann og látið malla. Vökvann þarf að sjóða niður um ca 3/4 –  4/5. Bragðið á því eftir um klukkutíma og metið hvort að það sé orðið nógu bragðmikið. Þegar þið eruð ánægð er slökkt á hitanum. Gott er að láta soðið standa í pottinum í hálftíma, klukkutíma í viðbót til að draga í sig aukið bragð áður en það er síað.

Síið og geymið.

 

Deila.