Rauðrófusalat með geitaosti og hunangsdressingu

Sem betur fer er það liðin tíð að rauðrófur var einungis hægt að fá eftir að þær voru soðnar niður í dós í Danmörku eða þar í grennd. Rauðrófur eru afskaplega „fjölhæfar“ og þær er hægt að nýta á margvíslega vegu. Eitt af því sem að smellur fullkomlega að rauðrófum er geitaostur og hnetur, ekki síst ef smá sæta kemur líka við sögu og hana fáum við með því að setja gott hunang í dressingið. Við notuðum franskan geitaost og spænskt lífrænt hunang og mikið var þetta gott. Hneturnar geta verið margs konar, t.d. valhnetur eða pecan.

Salatið er hægt að bera fram eitt og sér sem forrétt eða millirétt eða sem meðlæti.

  • 2 rauðrófur

Byrjið á því að sjóða eða baka rauðrófurnar þar til að þær eru orðnar mjúkar í gegn. Kælið þannig að hægt sé að flysja þær og skerið í bita. Það er best að þær séu enn volgar þegar að salatið er borið fram.

Annað sem þarf í salatið er þetta

  • grænt salat, t.d. eikarlauf eða romaine
  • hnetur, t.d. furuhnetur og/eða valhnetur og pecan
  • geitaostur

Ristið hneturnar í ofni við 200 gráður þar til að þær byrja að taka á sig lit. Skerið salatið niður og setjið á disk. Raðið rauðrófusneiðunum yfir og sáldrið síðan ristuðu hnetunum og ostinum yfir.

Athugið að það er hægt að nota fetaost ef að þið finnið ekki geitaost (hann er til í helstu ostaborðum, t.d. í Hagkaup, Ostabúðinni og Búrinu) eða nota hann ásamt geitaostinum. Geitaosturinn gefur hins vegar einstakt bragð með.

Síðast kemur hunangsdressingin en hún er gerð með eftirfarandi hætti:

  • 1 dl ólífuolía
  • 1/3 dl hvítvínsedik
  • 1 væn matskeið hunang
  • 1 væn tsk Dijon sinnep
  • salt og hvítur pipar

Pískið saman ólífuolíu og hvítvínsedik með gaffli. Bætið hunangi og sinnepi saman við og pískið vel saman. Bragðið til og bætið smá ediki eða hunangi við eftir smekk – sýra eða sæta. Bragðið loks til með salti og hvítum pipar. Best er að láta dressinguna standa í a.m.k. klukkustund áður en hún er borin fram.

Hellið dressingunni yfir salatið og berið fram.

Deila.