Grillaður asískur lax með kókosgrjónum

Þetta er alveg hreint magnaður grillaður lax. Brögðin eru úr asíska eldhúsinu og við notum líkt og svo oft áður þurrkaðan chili (chiliflögur) til að magna upp bragðið. Hér er það hvorki meira né minna en matskeið sem gefur ágætan en ekki yfirþyrmandi „hita“ í réttinn. Þið getið minnkað – eða aukið – chili-magnið allt eftir því hvað þið viljið ganga langt í þeim efnum. Kókosgrjónin eru siðan sótt til Taílands en þau falla frábærlega að krydduðum mat.

Laxamarinering

 • 1 dl jarðhnetuhnetuolía (eða önnur hlutlaus matarolia)
 • 2 msk sesamolía
 • 2 msk sojasósa
 • 1 væn msk púðursykur
 • 1/2 búnt vorlaukur, saxaður fínt
 • 1 msk chiliflögur
 • 4-5 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 væn matskeið rifinn engifer

Blandið öllu saman. Það er mjög þægilegt að setja kryddlöginn í plastpoka, t.d. ziplock-poka. Látið laxaflakið í pokann og leyfið að marinerast í 1-2 klukkustundir í ísskáp. Hitið grillið. Takið flakið úr pokanum og setjið á heitt grillið með roðhliðina niður. Grillið undir lokið í ca 8-10 mínútur, allt eftir því hvað flakið er þykkt, grillið heitt og þið viljið laxinn mikið eldaðan.

Berið fram með kókosgrjónum.

Kókoshrísgrjón

 • 4 dl hrísgrjón (Jasmine)
 • 1 dós kókosmjólk (4 dl)
 • 3 dl vatn
 • 2 sm bútur engiferrót, skorið í sneiðar
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1/2 búnt vorlaukur
 • 1/2 tsk salt

Setjið vatn, kókosmjólk, hrísgrjón og engifersneiðarnar í stóran pott. Saltið. Leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá hitann. Látið malla á mjög vægum hita undir loki þar til að grjónin eru tilbúin. Hrærið í við og við og passið upp á hitann svo að grjónin fari ekki að festast við botninn.  Takið loks engifersneiðarnar úr og hrærið kókosmjölinu saman við. Geymið undir loki í nokkrar mínútur.

Þá er komið að því að nota hinn helminginn af vorlauksbúntinu sem að notað var í marineringuna á laxinum. Saxið fínt og stráið yfir grjónin þegar að þau eru komin í skál.

Með þessum rétt er frábært að hafa gott Nýjaheims-Chardonnay, t.d. Montes Alpha Chardonnay frá Chile. 

Fleiri uppskriftir af grilluðum lax má finna hér.

Deila.