Arndís Ósk bloggar: Nauta Tagine með apríkósum, döðlum og söltuðum capers

Nú fer fólk að halda að ég setji saltaðan kapers í allt en ég skellti honum ásamt einni dós af tómötum í uppskrift af tagine sem ég þurfti að breyta þegar ég hélt ég væri búin að klúðra málum og bragðið var orðið eitthvað skrítið.  Þetta er svona þegar ég fer að elda án þess að vera búin að lesa í gegnum alla uppskriftina (stundum les ég nú í gegnum uppskriftir og veit mætavel að ég á ekki helminginn í þær, en held samt áfram). Og viti menn (og konur!), þetta reddast, matur er borin á borð, bragðast vel og maðurinn minn er alltaf jafnkátur!

Jæja, en tagine (tajine) er norður-afrískur réttur, sem finnst í hinum og þessum löndum sem tilheyra því svæði og nefnist eftir leirpotti sem rétturinn á að eldast í.  Ég á ekki slíkan.  Oftast er notað lamba- eða geitakjöt í þennan rétt en þar sem ég kaupi nautakjötskassa í kjötbúðinni á Háaleitisbraut til að forðast hræðilegt hakk matvöruverslana, á ég oftast nautagúllas í frysti. Ég hef óbeit á gúllasi, hef ekki smakkað gott gúllas þannig að eitthvað verð ég að gera við þessa bita.  Ég hef oft notast við uppskrift sem ég hef fundið á netinu eftir Nigellu Lawson, án þess að vera svo forsjál að skrifa hana niður og geyma hana.  Svo í hita leiksins fann ég hana svo ekki aftur þegar ég var búin að vera það skipulögð og taka nautið úr frysti.  Ég fann hins vegar þessa og leist vel á…..í byrjun.  Hún varð svolítið römm og ég fékk nett panik sem ég reddaði með tómötum í dós, 1 msk. af sykri og kapers.  Hér er hún í aðlöguðu formi (ég meina, hver er með granateplasafa inn í skáp eins og upprunaleg uppskrift heimtar?!, ef þið eigið hann getið þið sleppt rauðvíninu og notað hann í staðinn).

•    4 matskeiðar olífuolía – jafnvel meira ef kjötið er mjög magurt
•    2 laukar – saxaðir
•    1 teskeið kanill
•    1 teskeið túrmerik
•    1 teskeið þurrkað engifer (sem er nú svolítið svindl, notið 1 mtsk. af niðurrifinni engiferrót í staðinn til að hafa þetta enn betra)
•    1 teskeið allrahanda
•    800 gr. – 1kg. nautagúllas
•    150 gr. döðlur – saxaðar
•    150 gr. þurrkaðar apríkósur – saxaðar
•    400 ml. rauðvín
•    250 ml. vatn
•    salt og pipar
•    1 dós hakkaðir tómatar
•    1 msk. sykur
•    1 lúka af söltuðum kapers – skolið vel

•    Hitið olíuna og leyfið lauk að malla á lágum hita í ca. 10 mínútur.  Bætið þá öllum kryddum við nema salti og pipar og blandið vel.  Ef þetta er þurrt, þá má bæta smá slettu af olíu út á.
•    Hækkið vel undir hitanum og bætið kjöti við og steikið kjötið á alla kanta – ef það vantar olíu, þá bara gusið þið smá af henni út á
•    Bætið öllu öðru við, nema tómötum, sykri og kapers við og náið upp suðu.  Leyfið að sjóða á hægum hita í ca. 20 mínútur og bætið þá hökkuðu tómötunum við.
•    Þetta má sjóða í 1,5 tíma í viðbót á vægum hita.  Ekki láta það eftir ykkur að stytta tímann og hafa þetta á blússandi hita, því þá verður kjötið seigt. Mér finnst þetta verða betri með langri og hægri suðu þannig að ekkert vera að flýta ykkur að taka þetta af hellunni.
•    ca. 10 mínútum áður en þið viljið taka þetta af hellunni má bæta kapers að lokum við og smakka til með salti og pipar og til að athuga hvort þið þurfið að bæta sykrinum við.  Það fer líklegast svolítið eftir rauðvíninu sem þið tímduð að setja út í réttinn!

Ég gerði kalda jógúrtsósu með vorlauk og gúrkum með þessu en þið má henda grjónum í pott og gera salat með þessu.

Leynimeðlætið með þessum rétti fylgir hér með en það er appelsínusalat með rauðum lauk og svörtum ólífum – það er alveg hrikalega gott.
•    5-6 appelsínur – börkur tekinn af og skornar í þunnar sneiðar
•    1/2 rauður laukur – skorinn í þunnar sneiðar
•    slatti af heilum svörtum ólífum – sem ágætt er að kreista á milli fingranna til að opna þær svolítið
Þetta er einfalt, appelsínusneiðum er raðað á disk, lauk og ólífum stráð yfir.  Sjúklega gott.

Deila.