Fullkomin Ribeyesteik

Það er endalaust umræðuefni manna á milli hvernig eigi að grilla nautasteikina. Á að krydda hana? Á að berja hana aðeins til? Á að marinera hana? Á að grilla heitt og stutt eða á vægum hita og lengi? Það er því kannski ekki að furða að grein í vefútgáfu bandaríska tímaritsins Wine Spectator hafi vakið athygli okkar en þar var fullyrt að hægt væri að finna aðferðina við að grilla hina fullkomnu Ribeye-steik, hvorki meira né minna. Aðferðin kemur frá matreiðslumeistaranum Michael Velardi á steikhúsinu Pappa Bros. í Houston í Texas.

Við ákváðum að prófa hana. Uppskriftin er eftirfarandi:

  • Þykkar Ribeye-steikur – 2,5 -4 sm þykkar
  • Sjávarsalt
  • Nýmulinn pipar
  • saltað smjör, mjúkt

Hitið grillið eins heitt og þið mögulega getið.

Takið steikurnar tímanlega úr ísskápnum þannig að þær nái stofuhita. Saltið vel og piprið rétt áður en steikin fer á grillið. Ekki berja steikina neitt til.

Setjið á grillið. Ekki loka grillinu. (Hér fóru að renna á mann tvær grímur – við erum á Íslandi sumarið 2013 en ekki í Texas). Snúið steikunum á um 2 mínútna fresti. Eftir 8-10 mínútur eru þær orðnar medium-rare. (það er ef íslenska sumarblíðan nær ekki að kæla þær niður).

Leyfið steikunum að jafna sig í um 5 mínútur. Penslið með smjöri og berið fram.

Þetta var nú allur galdurinn á bak við hina fullkomnu Ribeye-steik samkvæmt þessu.

Og enn og aftur sannast. Ef maður hefur gott hráefni er oft gott að gera bara sem minnst. Auðvitað má deila um einhver smáatriði en eftir stendur: Hin fullkomna steik byggist á góðu hráefni semi fær að njóta sín.

Fleiri Ribeye-uppskriftir má finna hér. 

Deila.