Banfi La Pettegola Vermentino 2012

Vermentino-þrúgan var lengi vel fyrst og fremst tengd við ítölsku eyjuna Sardiníu og einnig er hún þekkt undir nafninu Pigato í Lígúríu og Rolle í Suður-Frakklandi. Hún hefur hins vegar einnig verið að ryðja sér til rúms í Toskana og þaðan koma nú orðið nokkur verulega frambærileg Vermentino-vín. Þetta er unaðsleg þrúga og einn af hennar helstu kostum er að hún heldur góðu sýrustigi  – og þar með ferskleika – þrátt fyrir að vera ræktuð í mjög heitu loftslagi.

La Pettegola er eitt af nýjustu vínum Banfi – þetta 2012 vín er fyrsti árgangurinn sem er framleiddur en þrúgurnar eru ræktaðar í strandhéraðinu Maremma í Toskana. Þetta er smart vín,  nokkuð arómatískt í nefi, suðræn blanda af blómum og ávöxtum, epli, perur og ylliblóm. Mjög þurrt með góðri og ferskri sýru. Frábært matarvín, ekki síst með skelfisk. Reynið t.d. með humarpasta eða humarpizzu.

2.648 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.