Ég er búin að prufa nokkrar uppskriftir af kjúklingi tikka masala og verð að segja að mér fannst þessi ein af þeim betri. Tikka Masala er í raun ekki „indverskur“ réttur í þeim skilningi að hann sé frá Indlandi heldur varð hann til við þróun indverska eldhússins í Bretlandi líkt og lesa má um hér.
- 600 g kjúklingabringur
- 6 hvítlauksgeirar, marðir
- 4 tsk engifer
- 4 tsk turmeric
- 2 tsk garam masala
- 2 tsk cumin
- 2 tsk kóriander
- 2 dl grísk jógúrt
- 1 laukur, saxaður
- 1 lítil dós tómatamauk
- 6 kardimommur
- 1/2 tsk chiliflögur
- 1 dós tómatar
- 3 dl rjómi
- búnt ferskur kóríander
- salt
- olía
Maukið saman hvítlauk , engifer, turmeric, garam masala, kóriander og cumin. Blandið saman jógúrt, tsk af saltinu og helmingnum af kryddmaukinu. Skerið kjúklingabringurnar í þrennt langsum og setjið út í blönduna og leyfið að marinerast í ísskáp, helst í 4-6 klst.
Hitið olíu á pönnu, bætið út í lauk, tómatamauki, kardimommum og chiliflögum og leyfið þessu að eldast þangað til tómatamaukið hefur dökknað og laukurinn er orðinn mjúkur (cirka 5 mín). Bætið síðan við hinum helmingnum af kryddblöndunni og eldið áfram í nokkar mínúter eða þangað til botninn á pönnunni byrjar að verða brúnn.
Setjið þá tómatana út í ásamt safanum og merjið þá með sleif. Leyfið suðu að koma upp, lækkið þá hitann og leyfið þessu að malla – hrærið í oft á meðan – þar til sósan byrjar að þykkna (8-10 mín). Setjið þá rjómann og ferska kóríanderinn út í og leyfið að malla áfram í 30-40 mínútur á lágum hita.
Á meðan sósan er að þykkna þá takið þið kjúklinginn úr leginum og raðið bitunum á ofngrind. Gott er að hafa ofnskúffu með álpappír undir. Eldið kjúklinginn í ofni í um tíu mínútur. Skerið bringurnar í litla bita og bætið út i sósuna ásamt nokkrum skeiðum af kryddleginum. Eldið þetta áfram á pönnunni í cirka 10 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Stráið loks söxuðum kóríander yfir.
Berið fram með hrísgrjónum og naan-brauði.