Andarlæri í ofni

Andarlæri eru ekki bara ódýrari en andarbringur, þau eru líka bragðmeiri og engin furða að Frakkar elski margvíslega rétti þar sem að lærin eru notuð. Þau henta vel til langtímaeldunar ólíkt bringunum sem yfirleitt eru bornar fram bleikar.

Hér er klassísk frönsk útfærsla af andarlærum, elduðum í þykkum potti í ofni. Kartöflurnar eldast með lærunum og steikjast í andarfitunni sem lekur af.

Andarlæri má finna frosin í flestum betri stórmörkuðum.

  • 4 andarlæri
  • 3 bökunarkartöflur
  • 2 rósmarínstönglar og/eða timjanstönglar
  • skvetta af hvítvíni ef þið eigið það til
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 200 gráður.

Flysjið kartöflurnar og skerið í teninga/bita.

Byrjið á því að steikja lærin í þykkum potti (eða pönnu) í 3-4 mínútur á hvorri  hlið). Saltið og piprið.

andarlæri í ofni

 

Takið lærin úr pottinum og setjið kartöflubitana  í pottinn í ásamt kryddjurtunum. Setjið  læri ofan á kartöflurnar. Setjið í ofninn og eldið í um eina og hálfa klukkustund, það er ágætt að taka pottinn út einu sinni eða tvisvar og velta kartöflunum um með sleif. Eftir eina og hálfa klukkustund er gott að hella smá hvítvíni í pottinn, kannski 1 dl eða svo, og leyfa því að eldast aðeins með kartöflunum, kannski í hálftíma í viðbót eða svo. Það má hins vegar alveg sleppa hvítvíninu og elda þá lærin í um tvær stundir.

Berið fram með t.d. strengjabaunum með hvítlauk.

Deila.