Arndís Ósk bloggar: Egg og beikon í muffinsformi – frábært á sunnudegi

Ég er sjúk í egg og beikon í öllum útgáfum ef finnst leiðinlegt að steikja beikon og það getur verið svakalega leiðinleg lykt af því hjá manni allan daginn þegar maður steikir það (note to self: kaupa almennilegan háf).
En ég var í stuði síðasta sunnudag og eyddi honum öllum í eldhúsinu.  Ég var óeðlilega gráðug þennan morgun, var búin að hnoða í brauð og var að elda grjónagraut í ofni (kem síðar með þær uppskriftir) og svo fór að líða að hádegi.  Ég ákvað því að snara í egg og beikon í formi fyrir eiginmanninn sem var að taka inn sumarhúsgögnin eftir „sumarið“ mikla – þetta tók engan tíma.  Þetta er nóg fyrir tvo frekar svanga og er létt í maga:
•    6 egg
•    75 gr. rifinn ostur
•    Ca. 8 beikonsneiðar
•    1 saxaður vorlaukur
•    Svartur pipar
•    Chili flögur
Hitið ofn í 200 gráður. Skerið 2 beikonsneiðar í 3 hluta og setjið í botninn á 6 hólfum af 12 hólfa muffinsformi – gerið ráð fyrir að setja í annað hvort hólf.  Takið svo eina beikonsneið og setjið innan í hvert hólf sem þið eruð að nota, leyfið því aðeins að koma upp og út á kantana.  Stingið inn í ofn í ca. 5 mínútur.
Hrærið egg og rifinn ost saman og kryddið.  Bætið smátt söxuðum vorlauk við.  Kippið forminu út og beikonið skreppur aðeins saman þannig að opnið það til að þið getið hellt eggjablöndunni og beikonið náið að faðma hana vel.  Stingið aftur inn í ofn í ca. 10-15 mínútur, en potið aðeins í með hníf til að sjá hvort að eggin eru farin að hleypa sig saman og þegar eggin blása sig aðeins út fyrir formin og eru orðin léttgullinn, þá takið þetta út í hvelli.  Ekki bíða of lengi í paranoju yfir því að eggin séu ekki til, annars verða þau of elduð og það er ekki jafngott.  Þið sjáið strax þegar þau eru tekin út hvort að þau þurfi nokkrar mínútur í viðbót.
Ég bar þetta fram með sterku sinnepi og mjólkursýrðu hnúðkáli frá Móðir Jörð (ég er reyndar sjúk í það þessa dagana og borða það með öllu…..).  Líklegast væri hægt að flokka þetta undir lágkolvetnauppskrift en mér finnst sú umræða svo leiðinleg að ég vil helst ekki taka þátt í henni.

Deila.