Chateau Tour Pibran Pauillac 2009

Pibran er ekki eitt af „stóru“ húsunum í Pauillac í Grand Cru-flokkuninni. Ekrur vínhússins eru hins vegar á besta stað og umluktar ekrum nokkurra „stóru“ vínhúsanna, nefnilega Mouton-Rothschild, Pontet-Canet og Lynch Bages. Þegar við bætist að það er teymið frá topphúsinu Pichon-Longueville sem sér um vínrækt og víngerð og verðið langt undir verði þekktari vínhúsa á svæðinu er ljóst að þetta er vín sem vert er að gefa gaum.

Árgangurinn 2009 er með þeim allra bestu nokkurn tímann í Bordeaux og það skilar sér hér. Dökkfjólublár litur, þung, dökk angan af sólberjum, fíkjum, eik og tóbakslaufum, ungt. Kröftugt, nokkuð tannískt í munni, ávöxturinn þéttur og fókuseraður. Langt. Mæli eindregið með umhellingu með 2-3 klukkustunda fyrirvara. Með önd, nautasteik eða villibráð.

4.998 krónur. Góð kaup.

Deila.