Fljótlegt Chorizo pasta

Spánverjar eru ekki þekktir sem pastaþjóð eins og Ítalír en það er rótgróin pastahefð þar eins og víðar í Evrópu. Spænska bragðið í þessari fljótlegu uppskrift kemur með chorizo-pylsunni (sem má fá heila í mörgum stórmörkuðum) og reykta paprikukryddinu, sem er mikið notað í spænskri matargerð og víðast hvar hægt að fá hér í búðum.

  • 500 g Tagliatelle
  • 1 chorizo-pylsa
  • 1 laukur, saxaður
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • 10-12 sveppir
  • 1 msk reykt paprika (smoked paprika)
  • 1 lúka flatlaufa steinselja, fínsöxuð
  • 1 dós tómatar
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Saxið lauk, hvítlauk og sveppi. Hitið olíu á pönnu eða þykkum potti og steikið í 3-4 mínútur. Skerið pylsuna í bita og steikið með í 2-3 mínútur í viðbót. Hellið þá tómötunum út á, setjið paprikukryddið út í, blandið vel saman og leyfið að malla í tuttugu mínútur til hálftíma á miðlungshita. Eftir því sem þið leyfið henni að malla lengur verður hún betri.

Blandið saxaðri steinseljunni saman við í lokin. Bragðið til með salti og pipar. Blandið saman við pasta og berið fram með nýrifnum parmesan.

Einfalt og gott spænskt rauðvín með s.s. Vina Albali.

Deila.