Blini eru litlar pönnukökur sem eru mjög algengar í rússneskri matargerð en einnig í Úkraínu, Póllandi og fleiri slavneskum ríkjum. Þær eru til dæmis ómissandi ef rússneskur Beluga-kavíar úr styrjuhrognum er borinn fram. Blini eiga þó ekki síður við með íslenskum bleikju- og laxahrognum og þá bornar fram á sama hátt og styrjuhrognin, með sýrðum rjóma og söxuðum lauk.
Hefðbundnar rússneskar Blini eru gerðar úr bókhveiti og ólíkt venjulegum pönnukökum er lyftidufti bætt saman við. Hér er sígild uppskrift þar sem bókhveitið er ríkjandi, það má þó líka hafa jöfn hlutföll á milli hveitis og bókhveitis.
- 200 g bókhveiti
- 80 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 3,5 dl volg mjólk
- 2 egg
- 250 g brætt smjör
Bræðið smjörið og kælið svo niður í volgt. Skiljið eggin og stífþeytið eggjahvíturnar. Hrærið volga mjólkina og eggjarauðurnar saman við þurrefnin. Hrærið smjörið saman við deigið. Bætið svo stífþeyttum eggjahvítunum svarlega saman við deigið.
Á myndinni má sjá tvenns konar blini: Með sýrðum rjóma, laxahrognum og söxuðum rauðlauk. Hitt með sýrðum rjóma sem sítrónusafi var hrærður út í, taðreyktum laxi og söxuðum vorlauk.
Með svona blini er best að bera fram kampavín og/eða ískalt vodka.