Basilkjúklingur með spínatbyggotto

Basil og sítróna ásamt hvítlauk mynda frábært bragð í þessum kjúklingarétti ásamt kirsuberjatómötunum sem eru eldaðir með. Kjúklingurinn verður bragðmikill og safaríkur og sítrónan og soðið mynda góða sósu á pönnunni. Með þessu gerðum við byggotto með spínati, sem er í raun „risotto“ nema hvað að grjónunum er skipt út fyrir bygg eða farro. Fullkomin blanda.

  • 8 kjúklingalæri á beini
  • 50 g smjör
  • væn lúka af fersku, söxuðu basil
  • 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • rifinn börkur af og safi úr einni sítrónu
  • sjávarsalt og nýmulinn pipar

Saxið basil og hvítlauk og rífið börkinn af sítrónunni. Stappið saman við smjörið ásamt salti og pipar. Losið húðina frá lærunum með því að þrýsta þumalfingrinum inn undir. Setjið eina teskeið af kryddsmjörinu undir húðina.

Næst þurfum við líka

  • 2 box af kirsuberjatómötum

Þá er komið að því að steikja kjúklinginn. hitið olíu og smjör á pönnu og brúnið lærin báðum megin, ca 2 mínútur á hvorri hlið. Bætið þá tómötunum út á pönnuna og kreystið safann úr sítrónunni út á pönnuna. Steikið aðeins áfram (látið skinnhliðina snúa upp).

Deilið afganginum af kryddsmjörinu ofan á lærin og setjið inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið í um 25 mínútur.

Á meðan gerum við byggott-óið. Það er hægt að nota bygg eða farro (sem fæst í Frú Laugu og Kosti). Við elskum farro og ákváðum að nota það.

  • 4 dl farro/bygg
  • 1,5 lítrar kjúklingasoð (heitt vatn og kraftur)
  • 2 skalottulaukar, saxaðir
  • 1 dl hvítvín
  • 1 poki spínat
  • 50 g rifinn parmesan
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Hitið olíu á pönnu. Svissið skalottulaukinn í 2-3 mínútur og bætið þá byggi/farro út á og veltið um á pönnunni í nokkrar mínútur. Hellið hvítvíninu út á og sjóðið að mestu niður. Byrjið þá að ausa heitu soðinu yfir, fyrst þannig að það þekji korngrjónin alveg og síðan eftir þörfum. Byggið þarf aðeins lengri tíma en risotto-grjón, yfirleitt rúmlega 20 mínútna suðu með þessum hætti. Þegar það fer að verða tilbúið er spínatinu hrært saman við, það skreppur hratt saman. Loks er parmesanostinum blandað saman við og bragðað til með salti og pipar.

 

 

Deila.