Hallveig bloggar: Naan með hvítlauk og kóríander

Ég bakaði naan með lambinu í gær, eins og ég geri reyndar yfirleitt þegar ég elda indverskan mat. Brauðið er einstaklega einfalt, en þarf tíma til að hefast svo gefið ykkur góðan einn og hálfan tíma í að klára það frá upphafi til enda. Ég bý svo vel að eiga forláta pizzastein sem ég set í ofninn, best er að byrja að hita hann nógu snemma svo hann sé orðinn vel heitur þegar á að baka brauðið, ég set hann neðarlega í ofninn og hef svo háan hita, 225° og blástur. Best af öllu er þó að hafa steininn á kolagrilli og baka brauðið þar, en það er óþarfa vesen svona yfir háveturinn! Að sjálfsögðu er svo hægt að baka brauðin á venjulegu grilli í ofninum, eða jafnvel á pönnu.

Hér kemur uppskriftin að brauðinu:

  • 500 ml hveiti (og svolítið í viðbót til að hnoða og breiða brauðið út)
  • 1 og 1/2 dl mjólk
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk þurrger
  • 1 dós hrein jógúrt
  • 2 msk olía eða brætt smjör
  • 1/2 tsk salt
  • 2 msk smjör brætt
  • 1 hvítlauksrif
  • ferskt kóríander, rifið niður

Hitið mjólkina í líkamshita og leysið sykurinn upp í henni. Bætið gerinu við og leyfið því að lifna við í 10 mínútur til korter.

Setjið saman hveiti, salt og olíu/smjör í skál, hellið mjólkur-gerblöndunni saman við og að lokum jógúrtinu. Hnoðið deigið þar til það er silkimjúkt og slétt og bætið við hveiti eða smá mjólk eftir þörfum. Setjið deigið á heitan stað (ég set yfirleitt heitt vatn í stærri skál og svo deigskálina ofan í) og breiðið viskastykki yfir. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma.

Þegar deigið hefur hefast, takið það upp úr skálinni, skiptið í 5 litlar kúlur og breiðið vel úr hverri kúlu svo úr verði flatbrauð. Bakið brauðin þar til þau eru farin að taka lit.

Á meðan brauðin bakast skal hugað að hvítlaukssmjörinu. Bræðið smjörið í potti og kreistið hvítlaukinn saman við, rífið svo kóríanderið niður og bætið því út í rétt áður en þið smyrjið brauðin með smjörinu, eða dreifið því á eftir á, eftir því hvort ykkur finnst betra.

Deila.