Guðrún Jenný bloggar: Brauðið hans Tony (Panettone)

Nú fyrir jólin fékk ég skyndilega gríðarlega mikla löngun í panettone brauð.  Fyrir þá sem ekki þekkja það brauð þá er það ítalskt sætabrauð með þurrkuðum ávöxtum og alveg svakalega gott.  Brauðið er mjög létt í sér og helst gott í marga daga.  Til að svala þessari gríðarlegu löngun sem ég skyndilega fékk var auðvitað ekkert annað í stöðunni en að finna því sem næst skothelda uppskrift og prófa að baka svona brauð.

Svona brauð eru bökuð í sérstökum formum þannig að brauðið verður hringlaga og frekar hátt með kúptum toppi.  Ég á ekki panettone form svo ég að í fyrstu tilraun prófaði ég nú bara svona venjulegt hringkökuform úr sílikoni – sú tilraun gekk ágætlega upp.  Brauðið leit vel út og bragðaðist eins og panettone brauð, en áferðin fannst mér ekki alveg vera eins og ég vildi, brauðið var of þétt í sér.  Áfram var því haldið að finna hina fullkomnu uppskrift og þróa bökunaraðferðina enn betur.

Eftir þó nokkra leit á vefnum fann ég síðu sem sýndi hvernig ég gæti sjálf föndrað panettone form.  Þó svo að ég sé nú ekki mikil föndurmanneskja þá tókst þetta möndl alveg ágætlega þó ég segi sjálf frá.  Ég birti hérna hlekk á þessa vefsíðu ef þið skylduð vilja prófa.  Það er e.t.v. rétt að taka fram að ég notaði le Creuset fondue pott sem form sem ég fóðraði eftir kúnstarinnar reglum með bökunarpappír og brúnum umbúðarpappír.  Hér er svo hlekkurinn:

http://17years.whatle.com/2013/12/how-to-improvise-a-panettone-tin/

Hér er svo uppskriftin – ath. að þið náið ca þremur brauðum út úr þessari uppskrift.

 

  • 1 ½ bolli volgt vatn
  • 1 ½ msk þurrger
  • 1 ½ msk gróft salt t.d. Maldon
  • ½ bolli hunang
  • 8 egg léttþeytt
  • 1 bolli brætt og kælt smjör
  • 1 tsk sítrónudropar
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 tsk af rifnum sítrónuberki
  • 7 ½ bolli hveiti
  • 2 bollar þurrkaðir ávextir  t.d. rúsínur, trönuber, apríkósur
  • Til að pensla: egg og vatn hrært saman
  • Ofan á: perlusykur

 

Blandið saman geri, salti, hunangi, eggjum, smjöri, sítrónu-, vanilludropum og sítrónuberki.  Hveitinu bætt í ásamt þurrkuðum ávöxtum og deigið blandað vel saman.  Ég skellti þessu öllu í hrærivélaskálina og lét vélina um að mixa þessu saman á rólegum hraða.  Þegar deigið er komið vel saman (ath. það á ekki að þurfa að hnoða þetta) þá er það sett í skál með loki, þó ekki loftþéttu, og látið hefast í a.m.k. tvo tíma.  Næst þarf að kæla deigið og best er að kæla það yfir nótt.

Þegar deigið er kalt er unnt að vinna frekar með það og baka úr því.   Hægt er að geyma deigið í ísskáp í allt að fimm daga og ef maður vill dreifa bakstrinum á þessa daga þá er hægt að bjóða upp á nýbakað panettone í heila  viku.  En hvað um það – daginn sem þið ætlið að baka þá er best að byrja á því snemma dags að taka 1/3 af deiginu úr skálinni og forma það í kúlu.  Setjið svo kúluna með samskeytin niður í formið ykkar, breiðið hreint viskastykki yfir formið og leyfið deiginu að hefast í a.m.k. 4 tíma.  Bestum árangri náði ég þegar ég gleymdi deiginu í 6 tíma – þá varð það virkilega létt og loftkennt.

Ofninn er svo hitaður í 190° C. Áður en deigið er sett í ofninn er það penslað með eggja/vatnsþeytingnum og sykrinum stráð yfir.  Brauðið er svo bakað í 50 – 55 mínútur, fylgist vel með því svo að brauðið verði ekki of dökkt.

Kælið brauðið alveg áður en þið smyrjið það ríkulega með íslensku smöri.

Deila.