Haukur Heiðar: Þrír Þorrabjórar

Fyrstu árstíðarbjórarnir á hverju ári eru Þorrabjórarnir og þeir streyma nú í búðirnar.

Þorra Kaldi

Kaldi hefur í gegnum tíðina ávallt lagt mikla áherslu á árstíðarbundna bjóra. Þeir eru samir við sig, halda sig við tékknesku hefðina og brugga lagerbjóra með hinum ýmsu tilfærslum. Árangur Kalda á undanförnum árum kemur engum á óvart. Árið 2006 voru risarnir tveir, Ölgerðin og Vífilfell allsráðandi á íslenskum markaði og bjórmenning ekki komin langt. Innflutt öl seldist ekki sérlega vel og smekkur íslendinga var aðallega bundinn við ljósa lager bjóra. Þarna sáu Kaldi tækifæri, að koma með vandaða vöru á markað þar sem fólk hafði áhuga á að prófa eitthvað nýtt og framsækið en kannski innan þeirra marka að um ljósan lagerbjór væri um að ræða. Sú hefur reyndar verið hefðin í gegnum tíðina og hafa árstíðarbundnir lagerbjórar ávallt farið vel í landann.

Kaldi Þorra Kaldi er fallegur í glasi. Litnum á bjórnum mættii lýsa sem dökk gullnum. Hann er með lítinn haus af froðu sem helst skemmtilega þéttur þegar líða tekur á glasið. Í nefi er að finna kryddtóna, gras, malt og kannski örlítið smjör. Á tungu er hann þéttur af lagerbjór að vera, malt tónar gefa gras tónunum frá humlunum ágætis jafnvægi. Í heild sinni er hann áreynslulítill en hentar afskaplega vel með þorramatnum, eins og t.d. sviðasultu.

Víking Einiberjabock.

Víking koma í annað sinn með Einiberjabock sem árstíðarbundinn bjór. Víking hafa verið duglegir að þróa bock stílinn en í stuttu máli er um að ræða lagerbjór í stærri kantinum, þyngri í áfengisprósentu en hinn venjulegi lagerbjór og sætari. Hann á ættir að rekja til Þýskalands þar sem mikil hefð er fyrir bock bjórum sem árstíðarbundnum bjór á vorin.

thorrathraell Hér halda Víking í íslensku hefðina, lagerbjór bragðbættan með einiberjum en talið er að einiber hafi oft verið notuð við bjórgerð á Íslandi hér á öldum áður til að bragðbæta. Í nefi er að finna áberandi kryddtóna sem einiberin kalla fram, ásamt brenndum karamellum, örlitlu áfengi og malti. Á tungu er hann fremur stór miðað við stíl, sætur með örlítilli rist í lokin með keim af einiberjum. Vandaður bock hér á ferð.

Víking Þorra Þræll

Víking Þorra Þræll er viðbót frá Víking og alltaf gaman að sjá þá brugga öl í staðinn fyrir lagerbjóra. Þorra Þræll er það sem er kallað ESB eða Extra Special Bitter. Nafnið hefur þó lítið um biturleika að segja þrátt fyrir að hér sé humlað öl um að ræða, en hefðin gerir ráð fyrir að biturleikinn sé jafnaður út með maltinu. Jafnvægi er því það sem bruggmeistarinn vill kalla fram í ESB. Hinir bresku ESB eru oft litlir í áfengi og það sem kallast á enskri tungu “session” bjór eða bjór sem auðveldlega er hægt að drekka fleiri en einn af.

thorra

Hér er líklegast hugmyndin sú að þetta sé bjór sem hægt er að fá sér á laugardegi á Þorranum og fleiri en einn af. Og líklegast fleiri en tvo. Rauðgullinn með afar litlum haus, í nefi örlitlir humlar en talsvert toffí. Á tungu er hann mjög léttur með örlitlum keim af humlum. Kannski sá síðsti af þessum þremur en engu að síður áhugaverður að smakka.

Deila.