Pizza Bianca með ítalskri salami

Það er alls ekkert alltaf þörf á að setja tómatasósu á pizzuna. Pizzur án sósu eru kallaðar Pizza Bianca eða hvítar pizzur og þetta er ein þeirra. Ítalska salami í sneiðum má fá í flestum stórmörkuðum en einnig má nota aðrar niðursneiddar ítalskar pylsur.

Byrjið á því að gera pizzadeigi en uppskrift af því er hér.

Á pizzuna þarf svo eftirfarandi:

  • 0,5 dl ólífuolía
  • 4-5  hvítlauksgeirar
  • þroskaðir tómatar, t.d. kirsuberjatómatar eða plómutómatar
  • ítölsk salami
  • 2 stórar mozzarellakúlur
  • basil
  • salt og pipar

Fletjið deigið út.

Pressið hvítlauksgeirana. Blandið saman við olíuna ásamt smáklípu af sjávarsalti og nýmuldum pipar. Dreifið hvítlauksolíunni yfir pizzabotninn. Skerið ostinn í þunnar sneiðar og dreifið yfir botninn. Skerið tómatana í litlar sneiðar. Raðið salami og tómatasneiðunum á víxl yfir botninn. Rífið niður nokkur basilblöð og setjið á botninn.

Bakið í ofni á hæsta mögulega hita (helst 250 gráðum) þar til að botninn er orðinn stökkur og osturinn hefur bráðnað. Það er langbest að nota pizzastein.

Takið pizzuna úr ofninum og dreifið meira af rifnum basil yfir.

Skoðið allar pizzauppskriftirnar með því að smella hér.

Deila.