Þessi birtist fyrir langalöngu í Þjóðviljanum heitnum. Búin að elda hann oftar en ég hef tölu á. Naanbrauðin eru í sífelldri þróun reyndar, þessi á myndinni eru ættuð úr Matreiðslubók Nönnu og steikt á flatri pönnu frekar en í ofni en það má vel kaupa bara brauð hjá næsta indverska veitingahúsi ef maður nennir ekki að standa í að baka eða steikja.
(Uppskrift að naan brauði má sjá með því að smella hér)
Rétturinn er allavega ansi hreint góður, og einfaldari í eldun en hann lítur út fyrir. Mikilvægt að vera búinn að lesa alla leið í gegn um uppskriftina áður en fólk byrjar:
Indverskur rækjuréttur
- 500 g rækjur
- 1/2 dl matarolía
- 1 1/2 dl kasjúhnetur
- 1 stór laukur, í sneiðum
- 2 msk rifin engiferrót
- 2 msk pressaður hvítlaukur
- 1/2 tsk chiliduft
- 1/4 tsk túrmerik
- 1 tsk kumin
- 2 maukaðir tómatar úr dós
- 1/4 ds hrein jógúrt
- 1 msk tómatkraftur
- 1 dl kókosmjöl
- 1/2-1 dl kókosmjólk
- 3 dl basmatigrjón
- 3-4 heilar kardimommur
- 8 negulnaglar
- 1 kanilstöng
- 1 tsk salt
- 1 dl rjómi
- saffron (nokkrir þræðir)
Þíðið rækjurnar og þerrið. Þvoið grjónin og látið liggja í bleyti í 15 mín. Sigtið
vatnið frá. Hitið olíu á stórri pönnu. Bætið kasjúhnetunum út í og hrærsteikið þar
til þær verða fallega brúnar. Geymið hneturnar á eldhúspappír. Bætið lauk út í
sömu olíu og steikið, geymið hjá hnetunum. Bætið engifer, hvítlauk, chili, túrmeriki
og kumin út í og steikið smástund. Bætið tómatmauki við og steikið áfram, síðan
jógúrti og tómatkrafti, hrærið og steikið þar til olían skilur sig frá. Bætið kókosmjólk,
kókosmjöli og salti við og hrærið í þar til blandan fer að þykkna. Setjið rækjurnar
saman við, hrærið einu sinni og hellið öllu í eldfast fat.
Hitið ofninn í 180°. Hitið rjómann í örbylgjuofni í örstutta stund, bætið saffroni
saman við og geymið. Hitið uþb 2,5 lítra af vatni í potti, bætið við negulnöglum,
kanilstöng, kardimommum og salti og látið suðuna koma upp. Bætið hrísgrjónum
við og sjóðið í 6-7 mínútur. Sigtið vatnið frá og setjið hrísgrjónin ofan á rækjurnar.
Dreifið kasjúhnetunum og lauknum ofan á. Hellið síðan rjómanum yfir. Setjið
álpappír yfir og lokið þannig að gufan haldist í mótinu. Bakist í 15-20 mínútur
Berið fram með rætu og nanbrauði
Ræta:
- 1/2 agúrka, gróft rifin og safinn pressaður úr eins og hægt er
- 1/2 dós sýrður rjómi (11% dugir fínt)
- 1 dós hrein jógúrt (venjuleg MS stærð, ef þið notið þá grísku, þá hálf dós)
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk sykur
- 1/4 tsk cumin (broddkúmen)
Hrærið saman jógúrt, sýrðan rjóma, salt, cumin og sykur. Berið fram kalt. Virkar með flestum indverskum mat, ekki bara þessum rétti. Slær út rætuna á Austur-Indíafélaginu fyrir minn smekk :þ