Pizza með Merguez og geitaosti

Það eru norður-afrískir tónar í þessari bragðmiklu pizzu. Merguez eru pylsur úr lambahakki sem eru mjög vinsælar í Alsír, Túnis og Marokkó. Þær eru ekki seldar hér en með því að blanda lambahakki saman við krydd náum við rétta bragðinu. Ef þið finnið ekki lambahakk er minnsta mál að kaupa kjötbita og hakka sjálfur. Harissa er norður-afrískt chlimauk sem fæst í flestum stórmörkuðum.

Byrjið á því að gera pizzadeig en uppskrift af því er hér. 

Merguez-blandan

 • 500 g lambahakk
 • 2 msk Harissa
 • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 2 tsk fennel
 • 1 tsk cummin
 • 1 tsk mynta
 • 2 tsk Maldonsalt

Blandið öllu vel saman í skál. Setjið plast yfir og geymið í ísskáp.

Annað á pizzuna:

 • 1 poki spínat
 • 1 laukur
 • 100 g geitaostur
 • mozzarellakúla
 • Harissa
 • ólífuolía

Hitið ofninn í 250 gráður.

Byrjið á því að hita um matskeið af vatni á pönnu. Setjið spínatið á pönnu og veltið því um með sleif þar til að það er orðið mjúkt.

Fletjið pizzabotninn út. Smyrjið nokkrum teskeiðum af harissa á botninn. Skerið ostana niður og dreifið um botninn. Dreifið spínatinu yfir.  Skerið laukinn í þunnar sneiðar og dreifið um pizzuna. Dreifið loks kjötblöndunni yfir pizzuna. penslið kantinn með ólífuolíu.

Eldið í ofni – gjarnan á pizzasteini – í 10-12 mínútur.

Allar pizzauppskriftirnar má skoða hér. 

Deila.