Ítalskar kálfasteikur í sítrónusósu

Kálfasneiðar í sítrónu eða Vitello alla lemone er einn af þessum dæmigerðu ítölsku réttum sem að hefur þróast áfram víða um heim ekki síst í Bandaríkjunum. Okkar útgáfa hér er á ítölskum grunni en við mýkjum sítrónu aðeins með smá rjóma.  Það er hægt að nota tilbúnar kálfasnitsel-sneiðar eða taka sneiðar af t.d. læri og berja í „snitsel“ eða það sem Ítalir myndu kalla scallopini.

  • 4-6 kálfasneiðar
  • hveiti til að velta up úr
  • egg
  • 2 sítrónur (safinn úr báðum og rifinn börkur af annarri)
  • 2 dl hvítvín
  • 2 msk kálfakraftur
  • 1 lúka fínt söxuð steinselja (flatlaufa)
  • 2,5 dl rjómi
  • salt og pipar

Byrjið á því að berja kálfakjötið í þunnar sneiðar. Pískið egg. Veltið kjötsneiðunum fyrst upp úr egginu og síðan hveiti. Saltið og piprið.

Hitið olíu og smjör á pönnu. Steikið kálfasneiðarnar. Takið af pönnunni og haldið heitum.

Hellið víninu á pönnuna og sjóðið niður um rúmlega helming. Hellið sítrónusafanum út á og sjóðið áfram aðeins niður. Blandið kálfakraftinum saman við. Blandið rjóma saman við og látið malla þar til að sósan fer að þykkna. Blandið steinseljunni saman við.

Það er mjög gott að bera fram með spaghetti. Og auðvitað góðu ítölsku Toskana-víni s.s. Toscana Rosso frá Poggione.

Deila.