„Ítalskir“ dagar á Fiskifélaginu

Það hefur verið ítalskt þema í gangi á Fiskifélaginu síðustu daga og við ákváðum að kíkja á og prófa. Heimsferðirnar þar sem að áhrif héðan úr þaðan úr matargerð einstakra ríkja eru tekin, staðfærð og stílfærð hafa verið einkenni Fiskifélagsins frá upphafi og sjö rétta seðillinn „Umhverfis Ítalíu“ er einmitt grein af þeim meiði. Þetta er ekki ítalskur matseðill í þeim skilningi að þarna séu rammítalskir réttur heldur eru hugmyndir og stílbrigði frá ítalska eldhúsinu tekin og hugmyndaflugið notað til að laga þau að stíl Fiskifélagsins.

Vínseðillinn með er hins vegar rammítalskur alla leið en hægt er að fá sérvalin ítölsk vín með sem koma frá Veneto, Toskana, Púglía og Piedmont. Á undan og eftir er svo hægt að fá sér ítalskan kokteil – t.d .Negroni – og grappa eða limoncello með kaffinu á eftir.

Fyrsti rétturinn er skemmtilegt dæmi um hvernig þetta er útfært á Fiskifélaginu. Fullkomin rauðspretta og  á stangli á diskinum líka sýnishorn af hörpuskel, tígrisrækju og smokkfisk. Mjúk smjörsósa umlykur fiskinn og með þessu svartrót, sneidd niður í örþunnar ræmur áþekkar tagliatelle pasta. Og með þessu hvítvínið Tommassi Appassimento Bianco.

Næst komu skornar kálfaþynnur, kaldar. Þær eru kallaðar osso buco en hafa þó ekki þetta langeldaða yfirbragð, líklega nafngiftinn sótt í merginn sem var sneiddur í þunnum skífum yfir og þær bræddar með gasloga. Samhliða komu líka sultaðir tómatar með basil, stökku parmesankexi, tilbrigði við Caprese-salat. Þarna var farið yfir í rauðvín – Chianti frá  Ruffino.

Það hélt líka áfram með næsta rétti. Saltfiski með byggottó – það er risotto með íslensku byggi. Það var fallega gullið á lit, í því var grasker, sem gaf því sætu, mjúkt og kremað. Saltfiskurinn var mjög mildur og útvatnaður og yfir þessu villisveppafroða en lúðursveppir voru einnig hluti af réttnum.

Næst komu nautarif, hægelduð og mjúk, virkilega góð, rauðbeður með og laukar í margvíslegum myndum og þar var farið yfir í rauðvín frá Púglía – líka frá Tommasi, Surani Ares, dökkt, kröfutgt og heitt Primitivo vín blandað bæði Negroamaro og Cabernet Sauvignon.

Eftirréttirnir voru tveir. Fyrst Limoncello- ís, sætur og sítrónumikill og síðan Tiramisu-afbrigði. Átti kannski ekki mikið sameiginlegt með tiramisu annað en að þarna einhver staðar voru ladyfingers. Yfir þessu var skífa af hvítu súkkulaði og hindber settu ansi mikinn svip á réttinn. Með þessu Martini Asti, sætt freyðivín.

Ítalskir dagar standa til 27. október.

Deila.