Haukur Heiðar: Bjórmánuður á Kaffibarnum.

Undanfarin ár hefur Kaffibarinn haft þá hefð í október að panta inn ógrynni af alls kyns bjór og skipa sér þar með sess í heilan mánuð sem einn af bestu stöðum til að fá sér bjór í Reykjavík. Úrvalið er hæfilegt, ekki allt of mikið, ekki of lítið og mikil breidd á milli bjórstíla. Á hillum Kaffibarins má finna allt frá Pilsner Urquell, sem er þægilegur Tékkneskur pilsner, til Mikkeller Vanilla Shake sem er Imperial Stout af stærri gerðinni, alls 12% í áfengismagni. Þar að auki eru til dæmis bjórar frá Einstök og Kalda á krana.

Það besta við bjórmánuðinn er verðið á bjórunum. Hér er verið að hafa gaman af hlutunum og hófleg verðlagning á bjórinn. Það er því einstakt tækifæri fyrir bjóráhugamenn að kíkja á Kaffibarinn eftir vinnu það sem eftir lifir október mánaðar og smakka þar bjóra sem ef til vill verður ekki hægt að smakka aftur.

Undirritaður settist niður eftir vinnu í síðustu viku og heimsótti Kaffibarinn. Það sem var sérlega gaman að smakka var BrewDog Magic Stone Dog sem er „fusion“ á milli Pale Ale og Saisons bjórs, frábær samvinna frá BrewDog í Skotlandi og Stone í Californiu. Einnig var afar skemmtilegt að komast í Snowball Saison, jólabjór frá To Øl í Danmörku sem við á Vínótek fórum afar fögrum orðum yfir í fyrra (sjá hér: http://vinotek.is/2013/12/20/haukur-heidar-bloggar-ol-snowball-saison/)

Deila.