Crepes Suzette

Crepes eða pönnukökur „Suzette“ er sígildur franskur eftirréttur sem alltaf stenst tímans tönn. Uppruninn er ekki alveg ljós en elsta heimildin er líklega hið sígilda rit Escoffier þar sem er að finna uppskrift af pönnukökum þar sem mandarínusafi og börkur er notaður ásamt Curacao-líkjör til að bragðbæta pönnukökudeig og smjórsósu sem þeim er velt upp úr.

Á fyrri hluta síðustu aldar mun matreiðslumeistarinn Henri Charpentier hafa reynt að eigna sér réttinn. Hann var franskur kokkur sem fluttist vestur um haf og gerðist þar kokkur Rockefellers. Charpentier sagðist hafa sett þennan rétt saman árið 1896 þegar að hann starfaði á Café de Paris í Monte Carlo. Crepes Suzette hafi hann gert í tilefni af heimsókn prinsins af Wales og nefnt hann eftir fagurri stúlku er var meðal gesta og hét Suzette. Seinni tíma rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að Charpentier var barn að aldri á þessum tíma og hefði því aldrei getað fengið að koma nálægt jafn tignum gestu á Café de Paris á þessum tímapunkti.

En hvað um það. Crepes Suzette er klassík og það eru til nær óteljandi aðferðir við að gera þennan rétt. Hér er ein sem er klassísk og ansi skotheld.

Steikið fyrst venjulegar þunnar pönnukökur. Það má jafnvel blanda smá appelsínuberki í deigið.

Síðan þarf eftirfarandi:

  • 50 g smjör
  • rifinn börkur af einni appelsínu
  • safi úr 3 appelsínum
  • safi úr 1 sítrónu
  • 1 væn msk sykur
  • 3 msk appelsínulíkjör. Best er að nota Grand Marnier.

Blandið öllu nema smjörinu saman. HItið smjörið á pönnu. Þegar að smjörið hefur bráðnað er sósunni helt á pönnuna og hituð varlega á lágum hita. Þegar að hún er orðin heit er fyrstu pönnukökunni skellt á pönnuna. Hitið hana í gegn. Snúið við, brjótið í tvennt og síðan aftur í tvennt þannig að hún myndi þríhyrning. Setjið á disk. Endurtakið með næstu pönnukökur. Hellið loks sósunni yfir pönnukökurnar og berið fram.

Það þarf 1-2 pönnukökur á gest. Stundum eru pönnukökurnar flamberaðar í auka-líkjör áður en þær eru bornar fram.

 

 

Deila.